144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

skipan ferðamála.

40. mál
[12:10]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skipan ferðamála sem eru nr. 73/2005. Þetta frumvarp flyt ég ásamt fimm öðrum hv. þingmönnum Samfylkingarinnar.

Frumvarpið lýtur að því að inn í lögin verði skotið ákvæði sem felur það í sér að árlega skuli vinna ferðaþjónustureikninga sem hluta af þjóðhagsreikningum. Við þekkjum það sem höfum fylgst með þróun ferðamála að þeim hefur undið mjög hratt fram á síðustu árum. Það er kannski fyrst og fremst tvennt sem veldur því; annars vegar þær miklu sviptingar sem urðu á efnahagsumhverfinu með hruni bankanna 2008. Það leiddi til falls krónunnar sem hafði það í för með sér að það er miklu ódýrara og hagkvæmara fyrir útlendinga að koma til Íslands en áður. Hins vegar eru það skjót viðbrögð fyrri ríkisstjórnar sem eyddi sem svaraði til 1 þús. millj. kr. til þess að koma því á framfæri hvað Ísland væri ákjósanlegur áfangastaður ferðalanga í nýju umhverfi. Ég minni þar sérstaklega á tvö verkefni sem fyrri ríkisstjórn hratt af stað, Ísland allt árið og auðvitað Inspired by Iceland. Hvort tveggja leiddi til þess að þau stórmerki gerðust að hér fleygði fram þeim fjölda sem sótti Ísland heim. Árlega hefur nú um sinn fjölgað ferðamönnum um það bil 10–20% á ári. Hefðu menn látið segja sér þrisvar hér áður fyrri að svona skjót yrði breytingin.

Það hefur leitt til þess að ferðaþjónustan sem löngum var hornreka innan stjórnsýslunnar hefur tekið sér nýjan sess í atvinnulífi Íslendinga. Á þriðja ársfjórðungi þessa árs skapaði ferðaþjónustan meiri gjaldeyristekjur en nokkur önnur atvinnugrein á þeim tíma. Á tiltölulega fáum árum er hún orðin ekki bara burðarás í atvinnulífinu heldur ein af mikilvægustu greinunum sem við Íslendingar höfum á að skipa í atvinnulífi okkar að því er varðar framleiðslu á mikilvægum gjaldeyri og sköpun starfa.

Á sínum tíma var það keppikefli ferðaþjónustunnar að ná því fram að ferðaþjónustureikningar yrðu árlega unnir, í fyrsta lagi til þess að sýna fram á mikilvægi greinarinnar. Á sínum tíma var ferðaþjónustan hornreka, eins og ég sagði, og stjórnsýslan sinnti henni ekki nægilega vel. Þeir sem unnu innan greinarinnar vildu eðlilega geta sýnt fram á það með skipulegum og trúverðugum hætti að greinin væri orðin einn af hornsteinum í atvinnulífi þjóðarinnar.

Í annan stað voru rökin fyrir þessu þau að með slíkum reikningum hefðu bæði greinin og stjórnvöld aðgang að mikilvægu stýritæki til að móta stefnu og hafa áhrif á þróun greinarinnar í lengri og skemmri framtíð.

Í tíð þess sem hér stendur í iðnaðarráðuneytinu, þegar ferðamálin voru á þeim tíma flutt til þess, var fyrst hafist handa við að birta ferðaþjónustureikninga. Þá var það sérstök ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar og var sérstaklega veitt framlag á fjárlögum til verksins í gegnum iðnaðarráðuneytið. Hins vegar vann Hagstofan þessa reikninga. Henni var ekki markaður sérstakur liður í fjárlagafrumvarpi til verksins, en eins og segir í lögum um Hagstofuna getur hún tekið slíka þjónustu að sér gegn greiðslu. Þannig var því hagað á þeim tíma.

Með hruni bankakerfisins þurfti sú ríkisstjórn sem tók við þá heldur betur að láta að sér kveða til þess að rífa Ísland upp úr þeirri ördeyðu sem fylgdi. Þá þurfti að sjálfsögðu víða að grípa til þess að skera niður í ríkiskerfinu og lét ég það glaður yfir mig ganga á þeim tíma að þetta var eitt af þeim verkum. Rétt að segja frá því sannferðuglega. Það breytti ekki hinu að þegar það var gert var því lýst yfir af þáverandi ríkisstjórn að því verki, eins og ýmsum öðrum sem skáka þurfti til hliðar, yrði fram haldið um leið og rofaði til. Það hefur heldur betur gerst á síðustu missirum. Á þeim grunni sem fyrri ríkisstjórn lagði má segja að samfélaginu hafi undið fram með dágóðum hætti. Því er það að ég flyt þetta frumvarp til þess að koma þessu verkefni aftur inn í stjórnsýsluna með þeirri grein sem lagt er til að komi á eftir 28. gr. laga um skipan ferðamála. Er beinlínis mælt fyrir að ferðaþjónustureikningar skuli unnir árlega sem hluti af þjóðhagsreikningum.

Ég hygg að allir þeir sem þekkja á annað borð til ferðaþjónustunnar séu því sammála að hér er um mikilvægt mál að ræða. Það er óhætt að segja að með hliðsjón af því vaxandi mikilvægi ferðaþjónustu fyrir okkur Íslendinga sem ég hef rakið hér í örstuttu máli sé það ekki síður brýnt nú en áður að birta slíka reikninga árlega. Í þeim munu felast mjög mikilvægar hagrænar upplýsingar sem nýtast til stefnumótunar, eins og ég undirstrikaði áðan, bæði hjá stjórnvöldum og í greininni sjálfri. Því tel ég að full ástæða sé til að festa slíka reikninga í sessi með þessum hætti en ég undirstrika jafnframt, frú forseti, að um leið þarf að tryggja Hagstofunni fastar fjárveitingar til verksins í fjárlögum og að sjálfsögðu semja við þá góðu stofnun um að annast árlega vinnslu reikninganna.

Ég legg svo til að þegar umræðu um þetta merka frumvarp sleppir verði því vísað til hv. atvinnuveganefndar þingsins.