145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

frumvörp um húsnæðismál.

[10:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég get ekki annað en tekið undir málflutning fyrsta fyrirspyrjanda hér í dag hvað varðar frammistöðu ríkisvaldsins í málefnum Aflsins á Akureyri. Það er með endemum hversu snautleg þátttaka ríkisins er í stuðningi við það starf og lítið jafnræði í því ef borið er saman við það sem þó er gert í þessum málaflokki á höfuðborgarsvæðinu og mætti vera meira.

Ég er nefndarmaður í velferðarnefnd og áhugamaður og mjög áhyggjufullur stjórnmálamaður um stöðu húsnæðismála og ástandið á fasteignamarkaði, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, og aðstæður ungs fólks sem eiginlega er ekki nokkur lífsins leið að verða sér úti um íbúð og koma sér út á fasteignamarkaðinn á einhverjum kjörum sem ganga upp í dag. Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar boðar hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra — ég vek athygli á orðinu húsnæðis, ég veit ekki hvort áður hefur verið í starfsheiti ráðherra samkvæmt úrskurði um verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins að ráðherra fari sérstaklega með húsnæðismál — sex frumvörp um húsnæðismál á haustþingi, húsnæðisbætur, félagslegt leiguhúsnæði (stofnframlög), húsnæðissamvinnufélög, húsaleigulög, húsnæðismál (Íbúðastofnun) og húsnæðismál (húsnæðislán). Það eru sex frumvörp sem hæstv. ráðherra hefur boðað að yrðu lögð fram á haustþingi, væntanlega til umfjöllunar hér.

Ekkert þessara frumvarpa er komið á listann yfir frumvörp á heimasíðu Alþingis og ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra hverju sæti. Það er ekki nóg að halda fjölskipaða ráðherrafundi úti í bæ ef ekkert gerist í þessum málum. Það væri fróðlegt að heyra hvort hæstv. ráðherra teldi þetta meðal annars eiga hlut í landflóttanum, að ungt, menntað fólk flýi land vegna þess að húsnæðismálin eru í þvílíkum ólestri og ekkert að gerast. Hverju sætir að engin af þessum frumvörpum eru komin fram? Hvar eru þau strand? Er ágreiningur í ríkisstjórninni um þessi mál? Er hæstv. húsnæðismálaráðherra stopp af einhverjum ástæðum? Er hæstv. húsnæðismálaráðherra kannski bara búinn að velja þá leið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Forseti hringir.) í kvótamálum að gefast upp?