146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[12:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar öðru sinni. Spurningin er hvort ég og hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson séum ósammála um þetta mál og svarið er nei. Við erum í grunninn sammála um þau markmið sem ná skuli. Við erum sammála því að við viljum að kynjajafnrétti sé við lýði, líkt og lög kveða á um, við skipan þessa dómstóls eins og við aðrar skipanir og tilfelli.

Hv. þingmaður mælir þessi orð og þau eru sannarlega sprottin úr stefnu Viðreisnar og áherslum flokksins. Eins og ég hef ítrekað tekið fram hér ræður ekki síst afstöðu minni í þessu máli sá tímarammi sem um er að ræða og þau áhrif sem breytingin hefði og þyrfti hún að skoðast í stærra samhengi. Við erum því ekki ósammála um þessi mál og hann styður þetta. En við viljum jafnframt fylgja málinu eftir.

Svo ætla ég að leyfa mér í lokin að velta því upp, því að nú hefur ítrekað komið fram að þessi áhersla kemur ekki síst fram vegna — ja, einhver talaði um ótta, ég ætla bara að nota það orð, um að dómsmálaráðherra muni ekki fara að jafnréttislögum. Ef það er málið má svo sem spyrja: Hverju myndi þetta breyta ef ráðherrann væri með einbeittan brotavilja í þessu máli? Þetta ákvæði er inni, hnykkt hefur verið á því, annars vegar í meirihlutaálitinu og ekki síður í lögum og breytingum varðandi hæfnisnefndina. Ég ætla því að leyfa mér að segja, eins áhugasöm og ég og minn flokkur erum nú um að þetta mál verði í sem bestum farvegi og fái sem besta útkomu, (Forseti hringir.) að við séum hér með að tryggja það.