150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

orðspor Íslands í spillingarmálum.

[10:33]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég óttast að Ísland sé að teiknast upp sem spillingarbæli í augum umheimsins. Skemmst er að minnast þess að Ísland lenti á gráum lista vegna skeytingarleysis gagnvart peningaþvætti og þar er Ísland á meðal 11 annarra ríkja og Namibía er ekki á meðal þeirra. Þá muna eflaust einhverjir eftir Panama-skjölunum þar sem ríkasti hluti þjóðarinnar kom eignum sínum undan til þess að forðast skattgreiðslur eins og almenningur þarf að inna af hendi. Loks má minna á tíu ára afmæli hrunsins þegar gráðugir fjárglæframenn komu landinu næstum í þrot og allar spillingarflétturnar í kringum það.

Við í Samfylkingunni höfum ítrekað varað við því þegar gríðarlegur auður safnast á of fáar hendur. Nú er eitt fyrirtæki að rústa orðspori Íslendinga ef sakir reynast sannar. Það er sakað um mútur og skattsvik, óboðlega hegðun gagnvart fátækasta fólki Afríku. Hefur ráðherra ekki áhyggjur af því að fyrirtæki sem treyst hefur verið til að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar bregðist því trausti og þeim skyldum með jafn afgerandi hætti og nú er að teiknast upp og geti lengt veru okkar á þessum gráa lista?

Telur hæstv. ráðherra að svo mikill auður geti safnast hjá einu fyrirtæki að það geti skapað bæði orðsporsvanda og kerfisáhættu fyrir heila þjóð og haft áhrif á önnur útflutningsfyrirtæki?

Að lokum: Getur hæstv. ráðherra hugsað sér að styðja breytingartillögu Samfylkingarinnar um að láta aukið fé til héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra til að upplýsa þessi mál?