150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

tengsl ráðherra við Samherja.

[10:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Þegar spurt er um ásýnd eins og hv. þingmaður gerir fer það örugglega eftir því hver á í hlut, einfaldlega vegna þess að veröldin eins og hún er, margbreytileg sem betur fer, blasir við okkur með ólíkum hætti, allt eftir því hver á í hlut og hver lítur hana augum. Það er einfaldlega þannig. Það kann vel að vera að ég eigi erfitt með að greina á milli þess við hvern ég er að tala sem vin minn eða æskufélaga og starfs sem hann gegnir. Ég skal þó hafa þau orð hér uppi að ég reyni að gera það af besta og fremsta megni og skal taka hverri athugasemd sem kemur fram heils hugar og fara yfir hana af hlutlægni eins og ég framast get þar sem menn geta með áþreifanlegum hætti lagt fram upplýsingar um það að ég sé á einhvern hátt að misnota aðstöðu mína eða beita mér í þágu tiltekinna þröngra hagsmuna.

Staðreyndin er sú að ég lifi í samfélagi, geng til fundar við fólk og er í þjónustu fólks, lifi og starfa í Norðausturkjördæmi, hef gengið þar í gegnum fernar kosningar frá því að ég kom til þings og prófkjör þar á milli. Aldrei hef ég skorast undan því að ganga til fundar við fólk, umbjóðendur mína og leggja verk mín í dóm þeirra. Ég finn að mér er treyst en á engan hátt skal ég segja að ég sé ekki breyskur maður. Hver er það ekki? Enginn. Ég leita umboðs og ég leita trausts hjá því fólki sem ég sæki til og býð mig fram til þjónustu fyrir hverju sinni. Sem betur fer hef ég verið og er í aðstöðu til þess að þakka fyrir það mikla traust sem mér hefur verið sýnt.