150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

spilling.

[11:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir að eiga frumkvæði að þessari mikilvægu umræðu sem kemur í kjölfar sláandi myndar sem var byggð á gögnum um samskipti eins stærsta útgerðarfyrirtækis Íslands við namibísk yfirvöld. Það er ljóst að þar koma fram sterkar vísbendingar um að framin hafi verið lögbrot. Þess vegna er mikilvægt, og ég vil byrja á að segja það, að þetta mál er komið til rannsóknar hjá héraðssaksóknara. Það er mjög mikilvægt að þar verði vandað til verka og að allar staðreyndir málsins verði dregnar fram. Að sjálfsögðu munu stjórnvöld tryggja að þær stofnanir sem fara með rannsókn málsins hafi fullt svigrúm til að sinna henni af kostgæfni. Þessi umfjöllun minnir okkur líka á hversu mikilvægt er að eiga annars vegar öflugan og óháðan almannaþjónustufjölmiðil, Ríkisútvarpið, og hins vegar á mikilvægi sjálfstæðra fjölmiðla sem geta sinnt rannsóknarblaðamennsku.

Ég er líka sammála hv. þingmanni um að það er tilgangslaust að hneykslast, þó að auðvitað geri það margir í kjölfar slíks máls, það eru eðlileg viðbrögð, og að mikilvægara sé að horfa til þess sem gert hefur verið og hvað gera þarf. Hv. þingmaður sagði: Við erum ekki saklaus lengur. Ég spyr: Höfum við einhvern tímann verið saklaus? Er ekki staðreyndin sú að mjög margt hefur breyst í íslensku samfélagi frá því að við hv. þingmaður vorum börn að aldri? Heldur hv. þingmaður að svona umfjöllun hefði komið upp þá og vakið þessi viðbrögð? Ég segi nei við því, ég held nefnilega að íslenskt samfélag hafi breyst til batnaðar og að kröfur almennings séu aðrar en þær voru. Og það er gott, það er nefnilega gott. Ég held að við eigum ekki að horfa fram hjá því að undanfarinn áratug, allt frá hruni, hafa umfangsmiklar breytingar verið gerðar á laga- og regluverki sem tengist fjármálaumsvifum og við eigum að halda því til haga þó að ég sé að sjálfsögðu sammála hv. þingmanni um að við getum lengi gert betur í þessum málum og tryggt betur stjórnsýslu okkar í þeim.

Ég vil nefna í stuttu máli nokkur atriði sem tengjast veru Íslands á gráum lista FATF. Mér finnst mikilvægt að undirstrika enn og aftur að þegar síðasta úttekt þeirra samtaka kom fram í apríl 2018 var vissulega brugðist við og það hefur verið ráðist í umfangsmiklar úrbætur þrátt fyrir að við höfum endað á þessum gráa lista. Það sýnir hins vegar að ekki var brugðist við nægjanlega snemma, það er alveg rétt, en ég vil þó minna á að þetta hafa stjórnvöld gert síðan með dyggum stuðningi Alþingis. Ég vil sérstaklega nefna frumvarp ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um raunverulega eigendur sem var samþykkt á Alþingi sem mun skipta mjög miklu máli til að bæta umgjörð þessara mála.

Ég minni líka á að mútugreiðslur, hvort sem eru til innlendra eða erlendra opinberra starfsmanna, eru ólöglegar að alþjóðalögum. Ég minni á að íslensk stjórnvöld undirrituðu fyrst OECD-samninginn í París 1997 og hann var fullgiltur 1998. Í fyrra, 2018, fjölluðum við um frumvarp í þessum sal þar sem refsingar vegna mútugreiðslna voru hertar vegna þess að við höfum verið að taka á þessum málum.

Þarna skiptir það máli sem við höfum verið að gera. Hv. þingmaður nefnir líka reglur um skattalagabrot og skattundanskot. Mjög miklar breytingar hafa orðið á þeim vettvangi undanfarinn áratug, allt frá því að reglurnar um CFC-félögin voru settar árið 2010, reglur um milliverðlagningu árið 2014, skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu árið 2017, takmörkun á frádrætti vaxtagjalda 2017, fyrir utan þá 44 upplýsingaskiptasamninga sem hafa verið gerðir frá árinu 2008. Vissulega er búið að gera margt.

Sömuleiðis hef ég lagt mikla áherslu á lagabreytingar og regluverk í kringum hagsmunaskráningu, hagsmunaárekstra og upplýsingar og gagnsæi. Það er auðvitað með þessi mál að því meira gagnsæi, því betra.

Ég mun á þessu þingi leggja fram frumvarp um lagabreytingar til varnar hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands. Alþingi hefur þegar samþykkt ýmis frumvörp mín, m.a. um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna og breytingar á upplýsingalögum, og mér skilst að í dag eigi að mæla fyrir frumvarpi um vernd uppljóstrara. Því verðum við að segja að undanfarinn áratug hefur einfaldlega mjög margt gott verið gert af hálfu stjórnvalda og Alþingis til að bæta laga- og regluverk um fjármálakerfið, fjármálaumsvif og viðskipti.

Ég vil líka segja að við gerum að sjálfsögðu þá skýru kröfu að íslensk fyrirtæki fylgi lögum hvar sem þau starfa því að þegar íslensk fyrirtæki starfa í öðrum löndum bera þau ekki aðeins ábyrgð á eigin orðspori, heldur orðspori heils samfélags. Þetta er mál sem varðar okkur öll, ekki bara einstök fyrirtæki, og því verður það ekki liðið að íslensk fyrirtæki brjóti lög og reglur. Næsta skref hlýtur að vera að (Forseti hringir.) rannsaka þetta mál ofan í kjölinn og þó að lagaumhverfið hafi tekið breytingum til batnaðar þurfum við þingmenn að fara yfir það nú hvort (Forseti hringir.) frekari breytingar þurfi að gera. Það er líka alveg ljóst að lögum þarf að fylgja og það hefur afleiðingar ef þeim er ekki fylgt.