150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

spilling.

[11:22]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ástæða þessarar umræðu hér eru fréttir af skipulögðu, úthugsuðu athæfi íslensks útgerðarfyrirtækis, flaggskips í eiginlegri merkingu þess orðs, við aðstæður sem eru eiginlega eins ömurlegar og hægt er að hugsa sér. Við erum þjóð sem byggir lífsviðurværi sitt á náttúruauðlindum en núna erum við líka þjóð sem svíkur aðra þjóð um eðlilegt endurgjald fyrir auðlind sína. Það er ástæða til að rifja upp að við erum heimsmeistarar í aflandsfélagaeign í skattaskjólum miðað við höfðatölu, eins og fram kom í Panama-skjölunum, og við vitum líka að það eru ekki einu skjölin. Við erum einnig eina ríkið á Evrópska efnahagssvæðinu sem er á gráum lista vegna ónógra peningaþvættisvarna. Staðreyndin er sú að við í íslensku samfélagi þurfum að gæta okkar sérstaklega vel. Við erum einfaldlega í áhættuflokki og höfum ekki staðið okkur nægilega vel í forvörnum. Áhættan felst í frændhygli. Það er ekki flóknara en svo. Áhættan felst í því að við höfum tamið okkur hér, í þessu litla þétta samfélagi okkar, að líta gjarnan á viðleitni til að innleiða lög og reglur sem persónulegar árásir, þar á meðal siðareglur til að koma í veg fyrir að fólk misfari með vald og traust, til að koma í veg fyrir að slíkar aðstæður myndist. Sú tækni virkar mjög vel í okkar litla samfélagi. Ég frábið mér þessar dylgjur, er upphrópun sem gjarnan hefur verið viðbragð við tilraunum til að koma á fót fyrirbyggjandi kerfi. Ertu að ásaka mig? Ég sem var með þér í skóla. Ég þekki mömmu þína, ég réð pabba þinn, ég keypti íbúð af vini þínum, ég hef séð þig með bleiu o.s.frv. Þetta verður alltaf persónulegt og þeirri nálgun er kerfisbundið viðhaldið af þeim sem hafa hagsmuni af því að halda öllum leiðum opnum.

Herra forseti. Það er kominn tími til að við hlýðum kalli almennings og tökum á þessum kerfislæga vanda okkar og sú vinna þarf að byrja hér í þessum sal.