150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

spilling.

[11:45]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Spilling þrífst í öllum löndum heims. Ísland er ekki sértilfelli. Við erum kannski skárri en mörg önnur lönd og ég fullyrði reyndar að við séum skárri en mörg önnur lönd. Ég hef séð stór peningaþvættismál sem teygja sig yfir margar heimsálfur. Reyndar er þetta stórt peningaþvættismál sem teygir sig yfir margar heimsálfur en þau eru oft stærri. Ég hef séð peningaþvættismál upp á 120 milljarða dollara.

Fórnarlömb alþjóðlegrar spillingar finna ekki fyrir umfanginu. Þau finna bara fyrir afleiðingunum sem eru fátækt, örbirgð og hryllingur. GFI mat árið 2008 að um 1.200 milljarðar dollara flæði út úr þróunarríkjum á hverju ári á móti 100 milljörðum dollara sem flæða inn í formi þróunaraðstoðar. Í svona málum verðum við að átta okkur á alþjóðlega samhenginu og það er rétt sem hæstv. forsætisráðherra sagði, það er gott að þessi mál séu að koma upp á yfirborðið. Við erum að takast á við þessi vandamál. Við höfum staðið okkur mjög vel og ég vil meira að segja meina að hæstv. forsætisráðherra hafi staðið sig einstaklega vel í þessum málaflokki. Það er margt að gerast og ég hef samúð með því að þetta taki langan tíma en við þurfum svolítið að spýta í lófana, ekki bara hér á landi heldur líka í alþjóðasamhengi. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við það að þessi mál þurfi að fara í einhvers konar ferli og að réttaröryggi þurfi að tryggja vegna þess að þegar við bíðum alþjóðlegan álitshnekki þurfum við að bregðast við. Það segir líka sitt um rót vandans á Íslandi hvað sumir eru fljótir til að heimta að umræðu um stjórn einnar helstu auðlindar okkar sé haldið utan við umræðuna. Hvers vegna ætli það sé?

Við erum að reyna að bæta okkur og það er gott en við skulum ekki horfa fram hjá rót vandans. Við skulum ekki leyfa okkur að afvegaleiðast. Við verðum að takast á við þetta (Forseti hringir.) fyrir okkur sjálf og fyrir allt mannkynið.