150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Ráðdeild og skilvirkni eiga ávallt að ríkja við meðferð almannafjár. Fjárlagafrumvarpið ber þess merki að ekki er ofarlega á verkefnalista ríkisstjórnarinnar að vinda ofan af ríkisbákninu. Þar fer fremstur í flokki Sjálfstæðisflokkurinn sem reglulega hefur hrópað hátt fyrir kosningar: Báknið burt! Þegar flokkurinn kemst síðan til valda heldur báknið áfram að vaxa.

„Við þurfum að taka rækilega til í ríkisfjármálunum og minnka ríkisbáknið.“ Þetta sagði hæstv. fjármálaráðherra árið 2010. Ekkert er að marka þennan málflutning. Þetta eru hrein öfugmæli. Þvert á móti leggur ráðherra fram fjárlagafrumvarp þar sem enn er bætt í ríkisbáknið. Ríkisbáknið hefur þanist út í tíð þessarar ríkisstjórnar og engar tilraunir hafa verið gerðar til að draga úr ríkisumsvifum. Er það þvert á það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað fyrir hverjar kosningar. Það er orðið löngu tímabært að ráðast í uppstokkun á opinbera kerfinu og draga úr umsvifum hins opinbera. Miðflokkurinn er eini flokkurinn sem veldur því verki. Flokkurinn leggur fram breytingartillögu við frumvarpið þar sem gerð er hagræðingarkrafa á öll ráðuneyti upp á 10%. Mun það skila ríkissjóði 1.100 milljónum í sparnað. Auk þess leggjum við áherslu á að sameining Seðlabankans og FME skili hagræðingu upp á 350 millj. kr. og að þannig verði dregið úr ríkisbákninu upp á tæplega 1,5 milljarða kr.

Alls leggur Miðflokkurinn fram 18 breytingartillögur við frumvarpið. Tillögurnar eru allar fullfjármagnaðar, einkennast af raunsæi og auka ekki á halla ríkissjóðs. Þær helstu eru, auk þess að draga úr ríkisbákninu, 800 millj. kr. framlag til að mæta brýnum vanda hjúkrunarheimila en ríkisstjórnin hefur vanrækt þennan mikilvæga málaflokk með öllu þegar kemur að rekstri hjúkrunarheimilanna og svo er frekari lækkun á tryggingagjaldi upp á 25% en styðja þarf betur við íslensk fyrirtæki við að mæta hækkandi launakostnaði og sporna gegn fækkun starfa.

Miðflokkurinn leggur til að kolefnisgjald hækki ekki um 10%. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur kolefnisgjaldið hækkað um 85% og á nú að skila ríkissjóði 6,3 milljörðum í tekjur. Þessum nýja skatti er ekki jafnað niður á landsmenn af sanngirni og hann hefur hækkað úr öllu hófi. Umhverfisráðherra hefur staðfest að ekki sé hægt að segja til um árangur þessarar skattheimtu.

Við leggjum til að lóð Landsbankans við Austurhöfn verði seld og andvirðið renni í ríkissjóð. Það er óeðlilegt að banki sem er nánast að fullu í eigu ríkissjóðs skuli standa fyrir byggingu stórhýsis á dýrustu lóð landsins, ekki síst í ljósi þess að fjármálaþjónusta breytist hratt og að störfum fækkar stöðugt. Að sama skapi leggjum við til að viðbyggingu við stjórnarráðshúsið verði frestað. Áformuð bygging sver sig í ætt við svokallaðan „brutalist“ arkitektúr sem er talin gróf, ómanneskjuleg og köld stefna sem yfirleitt vekur litla jákvæðni hjá fólki. Þessar tillögur spara ríkissjóði rúma 2,5 milljarða kr.

Brýnt er að mæta rekstrarvanda heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og leggjum við því til 250 millj. kr. aukalega í þann málaflokk.

Málefni öryrkja skipta okkur öll máli. Miðflokkurinn er með vandaðar tillögur sem miða að því að bæta stöðu þeirra. Leggjum við til aukningu upp á 525 milljónir, annars vegar með því að fjölga störfum með stuðningi í gegnum vinnusamninga og hins vegar með því að hækka frítekjumark öryrkja.

Málefni lögreglu og tollgæslu hafa ekki fengið mikla athygli hjá ríkisstjórninni. Framlög til lögreglunnar eru lækkuð í frumvarpinu á sama tíma og skipulögð glæpastarfsemi vex í landinu. Miðflokkurinn telur brýnt að efla starfsemi bæði lögreglu og tollgæslu og leggjum við til breytingar upp á rúmlega 0,5 milljarða kr. í þennan mikilvæga öryggisþátt borgaranna.

Fleiri tillögur mætti nefna, eins og að atvinnutekjur eldri borgara skerði ekki lífeyrisgreiðslur, geðheilbrigðismál, heilsueflingu aldraðra, skógrækt og nýja aðferðafræði í stuðningi við einkarekna fjölmiðla.

Herra forseti. Fjárlagagerð þessarar ríkisstjórnar verður fyrst og fremst minnst fyrir nýja skatta í fallegum umbúðum, stanslausa stækkun ríkisbáknsins og andúð í garð einkaframtaksins eins og í heilbrigðismálum. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um skattalækkanir eru margvísleg gjöld hækkuð á móti, skattkerfið verður stöðugt flóknara og þyngra í vöfum. Skil milli skatta og þjónustugjalda verða sífellt óskýrari. Áform um enn fleiri skatta bíða á hliðarlínunni, t.d. urðunarskattur, og skattur á ferðaþjónustu er handan við hornið. Lélegur undirbúningur gerði ríkisstjórnina afturreka að sinni.

Sem fyrr er ríkisstjórnin í afneitun í efnahagsmálum. Treyst hefur verið á tímabundna aukningu í uppsveiflu. Ríkissjóður verður rekinn með halla (Forseti hringir.) í fyrsta skipti í sjö ár. Komið er að þolmörkum í óvissusvigrúmi, lítið hefur mátt út af bregða til að áætlanir brystu og tekjur dygðu til að fjármagna nauðsynleg gjöld.

Árið 2014 (Forseti hringir.) voru heildarútgjöld ríkisins 612 milljarðar. Í dag eru þau komin yfir 918 milljarða, (Forseti hringir.) 300 milljarða kr. aukning á sex árum. Útgjaldavöxtur undanfarinna ára er fordæmalaus, (Forseti hringir.) en hefur samfélagið breyst sem því nemur? Stöðugt er sópað undir vandamálateppi ríkisstjórnarinnar. Kjörorð hennar er: (Forseti hringir.) Stærra ríkisbákn, dulbúin skattheimta og nýir skattar í fallegum umbúðum.