151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

umhverfismál.

[15:31]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr um árangur. Ég get upplýst hv. þingmann um það að samkvæmt bráðabirgðatölum Umhverfisstofnunar varðandi loftslagsbókhaldið fyrir síðastliðið ár erum við nú í fyrsta skipti í mörg ár að ná árangri. Við erum að draga úr losun þegar kemur að útblæstri í vegasamgöngum um 2%. Það er árangur. Við erum að draga um 10% úr losun þegar kemur að úrgangi. Það er líka árangur. Við erum farin að sjá hjólin snúast vegna aðgerða þessarar ríkisstjórnar. Hvort sem þingmönnum líkar það betur eða verr og sama hvar þeir standa í pólitík þá eru þetta staðreyndir.

Varðandi flokkun úrgangs vil ég segja að frumvarp er í vinnslu í ráðuneytinu sem ég tel að muni gleðja hv. þingmann mjög mikið vegna þess að þar verður lagt til að samhæfa flokkun á öllu landinu, skylda flokkun bæði á heimilum og hjá fyrirtækjum, og stíga raunveruleg skref í þá átt að búa til hringrásarhagkerfi hér á Íslandi sem ég tek svo heils hugar undir með þingmanninum að við þurfum að ná betur utan um (Forseti hringir.) enda er það allt í vinnslu.