151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

vopnalög.

[15:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í starfi okkar þingmanna fáum við oft ábendingar um stór mál og smá. Nú er það svo að ég hef verið að æfa bogfimi undanfarin ár sem er sérstaklega góð íþrótt fyrir streituvaldandi starf eins og þingmennskan er. Og því miður tekur þingmennskan of mikinn tíma frá því að geta stundað íþróttina nógu mikið. Það þarf ákveðna hugarró og jafnvægi til að ná árangri. Bogfimi er líklega ein elsta áhaldaíþrótt mannkyns. Mér barst einmitt ábending frá bogfimihreyfingunni um að í vopnalögum standi að barn yngra en 16 ára megi ekki selja eða afhenda örvaboga með meiri togkrafti en 7 kg eða oddhvassar örvar. Nú er það svo að á alþjóðlegum mótum eru kannski 13 ára ungmenni að byrja að keppa á alþjóðavísu. Þar eru jafnvel notaðir 15–25 kílóa bogar sem gerir það að verkum að miðað við lögin okkar geta íslensk ungmenni í raun ekki æft eða keppt á Íslandi. Í raun geta þau ekki keppt, æft eða neitt svoleiðis fyrir erlend mót, hvað þá íslensk. Samt erum við t.d. með Íslandsmet í flokki undir 16 ára. Þetta er nýleg ábending sem vekur ákveðna athygli á því að við erum í vondum málum í þessari íþrótt. Mig langaði til að eiga orð við hæstv. ráðherra um þetta vandamál, að íslensk ungmenni geti ekki tekið þátt í þessari annars gömlu og göfugu íþrótt og ég leita eftir stuðningi ráðherra við að laga þetta vandamál.