152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Ég get alveg deilt þeirri skoðun sem hann lýsir hér. Það getur verið blæbrigðamunur og það getur líka verið stór munur á einhverju sem eru bætur eða styrkur. Ég held að allir nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd séu búnir að vera í miklum samskiptum við rekstraraðila úti um allt land og ég held að enginn þeirra vilji vera á einhverri ölmusu frá ríkinu, ekki nokkur maður. Ég held að fólk vilji heldur ekki vera styrkþegar. En þá spyr ég líka: Vill einhver vera bótaþegi? En vitaskuld er það svo að þetta frumvarp er lagt fram til að bæta rekstraraðilum tjón sem þeir hafa orðið fyrir vegna ákvarðana sem hér hafa verið teknar í nafni sóttvarna. Ég tel að þetta sé í flútti við aðrar aðgerðir og önnur frumvörp sem hér hafa verið lögð fram á þessu tveggja ára tímabili sem þetta ástand hefur varað og það að hér sé talað um styrki sé einfaldlega í samræmi við fyrri aðgerðir.