152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:32]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Ég tel að þetta frumvarp hafi tekið mjög mikilvægum breytingum í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar. Ég þakka nefndarmönnum fyrir gott samstarf og ég vil líka þakka umsagnaraðilum, fólki, fyrirtækjum og hagsmunasamtökum, fyrir þeirra þátt í að gera frumvarpið betra en það var þegar það kom fyrst inn í þingið. Þetta þingmál tekur auðvitað bara til mjög afmarkaðs hluta atvinnulífsins sem er veitingarekstur. Í framhaldinu tekur svo við umfjöllun um viðspyrnustyrkjafrumvarpið sem er nú loks komið fram. Þar þarf að gæta vel að samspilinu við það frumvarp sem við ræðum hér í dag. Ég held að óráð væri að slá því föstu eða gera sérstaklega ráð fyrir því að þetta frumvarp verði einhvers konar endapunktur þegar kemur að stuðningi við þennan geira. Við vitum í sjálfu sér ekkert hvernig veirufaraldurinn kemur til með að þróast og við þurfum áfram að vera mjög vakandi fyrir stöðu þeirra fyrirtækja sem hafa orðið fyrir mestum búsifjum vegna veirunnar og vegna sóttvarnatakmarkana. Þetta eru mikið til rekstraraðilar í persónulegri ábyrgð fyrir skuldum sínum, þetta eru fyrirtæki þar sem allt kapp er alla jafna lagt á að halda í starfsmenn og halda í ráðningarsambönd og ég held að við verðum að vera hreinskilin með það að fyrir mörg þessara fyrirtækja þá dugir hámarksstyrkurinn sem frumvarpið felur í sér mjög skammt.

Frumvarpið kom fyrst inn í þingið 17. janúar, ætla ég að hafi verið, en var tekið til 1. umr. þann 20. janúar. Þá voru það aðallega tvö efnisatriði sem ég vakti athygli á og kallaði eftir að brugðist yrði við. Í fyrsta lagi benti ég á að nóvember hefði verið mjög vondur mánuður hjá fjölda fyrirtækja í greininni og það gæti gefið tilefni til að víkka jafnvel út gildistíma veitingastyrkjanna. Í öðru lagi benti ég á ákveðið ójafnvægi í meðhöndlun annars vegar þeirra fyrirtækja sem voru stofnuð áður en heimsfaraldurinn skall á og hins vegar veitingastaðanna sem opnuðu rétt áður eða rétt eftir að við kynntumst veirunni. Samkvæmt frumvarpinu, eins og það var þegar það kom inn í þingið, átti fyrri hópurinn rétt á styrk ef tekjur í viðkomandi mánuði voru 20% lægri en tekjur í sama almanaksmánuði árið 2019 en hjá seinni fyrirtækjahópnum var hins vegar gert ráð fyrir viðmiðunartímabili þar sem harðar sóttvarnaráðstafanir voru alla jafna við lýði. Ég benti á að þetta væri ósanngjarnt og setti ákveðinn hóp veitingastaða í afleita samkeppnisstöðu. Mér til ánægju náðist mjög breið samstaða um það innan efnahags- og viðskiptanefndar að laga þessa þætti frumvarpsins. Hv. formaður nefndarinnar fór náttúrlega yfir þetta aðeins áðan, annars vegar var ákveðið að gera rekstraraðilum kleift að sækja um styrki vegna nóvembermánaðar 2021 og svo var ákveðið að koma til móts við staði sem voru stofnaðir eftir árið 2019 með nýju viðmiðunartímabili við mat á tekjufalli. Þetta er það sem hv. formaður var að tala um rétt áðan. Þetta er mjög mikilvægt og þýðir að í tilviki rekstraraðila sem hafa fengið rekstrarleyfi vegna veitingastaðar eftir upphaf sama almanaksmánaðar og umsókn varðar árið 2019 skuli að jafnaði miðað við meðaltekjur hans af veitingastaðnum á jafn mörgum dögum og eru í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar á tímabilinu 1. september til 30. nóvember 2001 eða frá þeim degi sem hann fékk rekstrarleyfi til 30. nóvember 2021 ef hann fékk rekstrarleyfi eftir 1. september það ár.

Í frumvarpinu er líka gert ráð fyrir nokkru svigrúmi fyrir rekstraraðila til að nota í raun annað tímabil til viðmiðunar en þennan sama almanaksmánuð árið 2019 ef það gefur betri mynd af tekjufallinu. Það sem ég var að inna hv. formann nefndarinnar eftir hér áðan var hvort ekki væri brýnt að í framkvæmdinni yrði þetta svigrúm túlkað svolítið vítt. Ég held að það sé mjög mikilvægt og að það komi skýr skilaboð frá þinginu um það. Kannski þarf þess ekki einu sinni en mér hefur alla vega heyrst, við meðferð málsins innan nefndarinnar, að það sé vilji nefndarinnar. Þetta er mikilvægt.

Í ljósi þeirra breytinga sem ég hef farið hér yfir og nefndin sameinaðist um ákvað ég að vera með meiri hlutanum á þessu máli og við í Samfylkingunni styðjum frumvarpið heils hugar. Það þýðir auðvitað ekki að aðferðafræðin sem hér er beitt í stuðningi við fyrirtæki sé endilega yfir gagnrýni hafin. Ég held enn að það hefði þurft að skoða það að endurvekja einhver af fyrri úrræðum fyrr, t.d. í desember. Þá er ég t.d. að hugsa um hlutabótaleiðina, að láta hana ná til afmarkaðs hluta atvinnulífsins. Ég held að við verðum að vera mjög meðvituð um að tímabundið tekjufall er ekki alltaf góður mælikvarði á það hvort fyrirtæki sé í rekstrarvanda eða ekki. Hér er sem sagt verið að fara þá leið sem líka hefur verið farin í fyrri úrræðum ríkisstjórnarinnar, í tekjufalls- og viðspyrnustyrkjunum, að styrkja fyrirtæki þá og því aðeins að þau hafi orðið fyrir svo og svo miklu tekjufalli miðað við sama mánuð árið 2019, áður en Covid brast á. Í frumvarpinu er veittur styrkur upp á 90% af rekstrarkostnaði með ákveðnu hámarki, annars vegar fyrir hvert fyrirtæki og svo með hliðsjón af fjölda stöðugilda. Auðvitað eru ákveðnir óheppilegir hvatar sem geta orðið til með þessari aðferðafræði. Ímyndum okkur tvö fyrirtæki, fyrirtæki A og fyrirtæki B, og bæði fyrirtækin lenda í rekstrarhremmingum vegna veirunnar og vegna sóttvarnatakmarkana. Fyrirtæki A gerir allt sem það getur til að halda í starfsfólk og ræðst í meiri háttar átak til að sækja sér auknar tekjur til að geta staðið undir launakostnaði. Fyrirtæki B fer hina leiðina, dregur saman seglin, styttir opnunartímann, segir upp starfsfólki og lætur bara tekjufallið svolítið yfir sig ganga og fer ekki í neinar meiri háttar tekjuöflunaraðgerðir. Frumvarpið sem við erum með hér ívilnar í raun fyrirtæki B en refsar fyrirtæki A í vissum skilningi. Ég held að við verðum að vera mjög meðvituð um þessa óheppilegu hvata en líka bara að horfast í augu við að ekki er til nein ein rétt leið til að styðja við fyrirtæki í svona ástandi. Á þessum tímapunkti og í þessu afmarkaða tilviki held ég að hugsanlegur skaði af þessum hvötum sem ég var að lýsa sé minni en samfélagslegi ávinningurinn af því að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir gríðarlegu tekjufalli vegna aðstæðna sem þeir fengu engu ráðið um, bæði vegna veirunnar sjálfrar og vegna þeirra takmarkana sem t.d. hæstv. fjármálaráðherra, eins og talað var um hér áðan, segir að hafi farið út fyrir mörk hins löglega. Sem þýðir þá að að hans mati hefur verið farið í ólögmæta skerðingu á atvinnufrelsi. Það felur það óhjákvæmilega í sér. Þá er það kapítuli út af fyrir sig hvort og hvernig brugðist verði við því og þeim skaða sem það hlýtur að hafa valdið.

Það hefur legið fyrir alveg frá því í byrjun desember og jafnvel fyrr að fjölgun smita og hertar sóttvarnaráðstafanir myndu bitna harkalega á ákveðnum greinum atvinnulífsins. Frétt birtist á vef RÚV þann 10. desember þar sem fyrirsögnin var: Sértækar aðgerðir áfram í boði fyrir veitingageirann. Í fréttinni var haft eftir hæstv. fjármálaráðherra að nú þyrfti að hafa hraðar hendur til að styðja við þennan geira. Ráðherra sagði, með leyfi forseta:

„Við getum augljóslega horft til dæmis til rekstraraðila í veitingageiranum sem kannski ná ekki að vera með opið. Við erum að taka það út sérstaklega núna. […] Já, við þurfum að bregðast hratt við.“

Þetta var 10. desember. Hvað gerðist svo? Jú, Alþingi fór heim í jólafrí án þess að kynntar væru eða samþykktar neinar útfærðar aðgerðir fyrir þessa atvinnugrein. Nú veit ég ekki hvort við Halldór Benjamín Þorbergsson hjá Samtökum atvinnulífsins séum sammála um margt en við vorum alveg hjartanlega sammála um það á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar þann 10. janúar síðastliðinn að það hefði tekið allt of langan tíma að bregðast við þessum vanda. Ég held hins vegar að hvorugum okkar hafi dottið í hug að það ættu svo eftir að líða margar vikur þar til farið yrði að greiða út beinan stuðning til rekstraraðilanna sem urðu fyrir mesta högginu í nóvember, desember og janúar. Þetta er bara staðreynd. Það hefur komið skýrt fram á fundum efnahags- og viðskiptanefndar að jafnvel þótt þetta frumvarp yrði samþykkt í dag eða á morgun eða hinn þá er alveg ljóst að engir styrkir verða veittir á grundvelli þess fyrr en eftir einhverjar vikur. Það mun taka tíma að setja upp stafræna umsóknakerfið og stuðningurinn sem hæstv. fjármálaráðherra gaf rekstraraðilum væntingar um í desember, 10. desember, mun ekki raungerast fyrr en kannski í lok febrúar eða einhvern tíma í byrjun mars. Við verðum auðvitað að vona að lánastofnanir taki tillit til þess að þetta er stuðningur sem mun berast á endanum. Fyrirtækin eiga rétt á honum og hafa lögmætar væntingar um að fá hann.

Þessar tafir sem ég er að tala um hér og okkur hefur verið greint frá í efnahags- og viðskiptanefnd stafa m.a. af því að í febrúar er Skatturinn að sinna lögbundnum verkefnum sem snúa að gagnaskilum og undirbúningi fyrir álagningu opinberra gjalda en svo á stofnunin líka fullt í fangi með að framkvæma önnur úrræði sem stjórnarmeirihlutinn tók ákvörðun um að ráðast í. Eitt þeirra er Allir vinna úrræðið sem fjármálaráðuneytið fann sig knúið til að vara sérstaklega við að framlengja. Eins og vel hefur verið farið yfir hér í þinginu er bent á, í viðvörunarplaggi frá ráðuneytinu, að það er ekki bara ofboðslega slæm hagstjórn heldur alveg gríðarleg vinna fólgin í því að afgreiða allar þessar umsóknir um endurgreiðslur og heilmikil skriffinnska fólgin í þessu. Ég ætla að lesa hér upp úr minnisblaði fjármálaráðuneytisins til efnahags- og viðskiptanefndar frá 16. desember, með leyfi forseta:

„Skattinum hafa borist alls um 100 þúsund umsóknir um endurgreiðslu síðan í mars 2020. Sem dæmi hafði Skatturinn afgreitt samtals 23.900 umsóknir vegna bílaviðgerða hinn 8. september sl. og endurgreitt VSK fyrir samtals 391 milljón kr. Að meðaltali nam því hver endurgreiðsla tæpum 16.400 kr. Velta má fyrir sér hvort vinnuafli Skattsins, sem sinnir þessum endurgreiðslum, væri mögulega betur varið í skatteftirlit sem samkvæmt Skattinum er talið gefast vel, eins og t.d. athuganir á innskattsfrádrætti aðila í rekstri.“

Já, þetta er kannski svona hliðarvinkill hjá mér sem ég freistaðist til að vekja athygli á. En það sem við þurfum kannski að velta alvarlega fyrir okkur í sambandi við framkvæmdina er sú spurning hvort Skatturinn sé nógu sterk stofnun. Þá meina ég bara hvort hún hafi nógu mörg stöðugildi, fái nægt fjármagn og hafi nógu sterka innviði og hugbúnað til að bregðast skjótt við aðstæðum eftir því sem þarf. Það hefur verið mjög áþreifanlegt í vinnu nefndarinnar undanfarnar vikur að hugmyndum um breytingar á stjórnarfrumvörpum er mætt með viðvörunarorðum um að þá verði svo mikið aukaflækjustig, þá verði enn meiri tafir á framkvæmdinni. Í því samhengi má kannski nefna að í endurskoðunarskýrslu ríkisendurskoðanda, um ríkisreikning ársins 2020, er fjallað sérstaklega um uppsafnaða tækniskuld ríkisins, að upplýsingakerfin hjá ríkisstofnunum séu komin til ára sinna, séu keyrð í gömlu tækniumhverfi og skrifuð á einhverjum forneskjulegum forritunarmálum og allt valdi þetta töfum og þyngslum í starfsemi ríkisins. Þetta er sem sagt enn þá staðan þrátt fyrir Stafrænt Ísland og allt það, núna árið 2022. Það getur verið full ástæða til að fara svolítið rækilega yfir það hvort ekki þurfi að stórefla viðbragðsgetu stofnana sem sjá um framkvæmd stuðningsúrræða fyrir fólk og fyrirtæki og læra þá af reynslunni af viðbrögðunum við heimsfaraldri.

Undanfarin tvö ár hafa minnt okkur mjög rækilega á að verðmætasköpun er samvinnuverkefni milli einkageirans og hins opinbera. Hvorugt getur án hins verið. Þetta þurfum við að muna nú þegar við höldum áfram að útfæra stuðningsúrræði vegna faraldursins og vegna stöðunnar almennt í efnahagslífinu. Við þurfum sterkt og sveigjanlegt ríkisvald og stofnanir sem er hægt að virkja hratt til að styðja við fólk og fyrirtæki.

Ég styð frumvarpið og ég hlakka líka til umfjöllunar um viðspyrnustyrkjafrumvarpið sem er loksins komið inn í þingið.