152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[17:55]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta frumvarp er um skipan dómara, en ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað tekur við þegar dómur er fallinn? Dómur Félagsdóms er endanlegur, en hvað gerist þegar niðurstöður eru komnar? Nú er ég sérstaklega að hugsa um niðurstöðurnar sem komu í janúar — ASÍ rak mál, fyrir hönd Flugfreyjufélags Íslands, fyrir dómnum gegn Samtökum atvinnulífsins, fyrir hönd Icelandair — en þær voru Flugfreyjufélagi Íslands í vil. Fyrirtækið, sem hafði notið stuðnings ríkissjóðs við að segja fólki upp, hefði átt að ráða fólk aftur inn í aldursröð en gerði það ekki. Dómurinn er skýr og hann liggur fyrir. En við hverju má starfsfólkið búast sem brotið var á? Þarna eru um 70 manns sem hafa borið skaða og kostnað af þessu framferði fyrirtækisins, og við hverju má það fólk búast? Hver ber ábyrgð? Hver grípur inn í? Og hver gætir að hag starfsmanna í þessu tilfelli? Getur hæstv. ráðherra vinnumarkaðarins farið yfir það með okkur hér?