152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

skaðabótalög.

233. mál
[18:27]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er aðeins að velta fyrir mér því sem hv. þingmaður kom inn á varðandi skilgreininguna, hvort mögulega ætti einnig að vísa í 217. gr. Ég fagna þeirri umræðu og má vel vera að það sé nauðsynlegt að tala um þetta í tengslum við náin sambönd. En þá stöndum við auðvitað líka frammi fyrir því hvernig dómarar eða dómstólar skilgreina náin sambönd. Við erum með nýtt dæmi þar sem dómari tekur þá ákvörðun eða kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé um ofbeldi í nánu sambandi að ræða vegna þess að ungt par var ekki skráð í sambúð. En það er hvergi tilgreint í lögunum að það sé áskilnaður fyrir skilgreiningu á því að falla undir 218. gr. b, þvert á móti. Það er hvergi talað um að fólk þurfi annaðhvort að vera í skráðri sambúð eða hjúskap þannig að við erum auðvitað í þeim vanda og mögulega þyrfti að taka það algjörlega fram í nefndaráliti, ef málið kemst alla leið, taka af allan vafa hvað það varðar. Mögulega þarf löggjafinn líka að fjalla sérstaklega um þetta og girða fyrir að þetta geti gerst aftur og leggja til breytingar á almennu hegningarlögunum, á þessu ákvæði, til að tryggja að svona gerist ekki aftur.