152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

skaðabótalög.

233. mál
[18:31]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem að þessu máli standa. Það er von mín að sú staðreynd að þeir þingmenn koma úr öllum flokkum þýði að við getum sýnt þolendum að við stöndum með þeim. Á undanförnum árum hefur það sýnt sig í auknum mæli að þolendur kynferðisafbrota bera ekki fullt traust til lögreglu og dómstóla til að rannsaka mál og dæma í þeim með sanngjörnum hætti. Margt bendir til þess að aðeins lítið hlutfall gerenda í slíkum málum þurfi að sæta refsiábyrgð vegna þeirra brota sem þeir fremja. Raunsæjasta myndin af tíðni kynferðisofbeldis er því að öllum líkindum sú sem má fá með því að greina upplifun brotaþola í réttarkerfinu.

Stígamót, grasrótarsamtök sem berjast gegn kynferðisofbeldi og veita aðstoð við þolendur þess, og hafa m.a. staðið fyrir öflugri fræðslu og upplýsingaveitu, hafa gefið greinargóðar upplýsingar um réttarkerfið frá sjónarhóli þolenda í ársskýrslum sínum. Í þeim er árlega gefin út tölfræði sem byggist á upplýsingum frá skjólstæðingum þeirra. Við mat á því hversu mörg brot eru framin ár hvert er hægt að horfa á það hversu margir nýir brotaþolar leita ráðgjafar hjá Stígamótum. Þó svo að í einhverjum tilfellum kunni að vera um eldri brot að ræða gefur tíðni nýrra mála vísbendingu um hversu mörg verða fyrir afbrotum á hverju ári, auk þess sem það gefur vísbendingar um þróunina ár frá ári.

Sé litið til undanfarinna ára má sjá að árið 2017 var heildarfjöldi nýrra mála 484. Það ár var um að ræða mesta fjölda nýrra brotaþola frá árinu 1992. Árið 2018 voru nýir brotaþolar 418 og árið 2019 voru þeir 411. Samkvæmt upplýsingum frá Stígamótum var fjöldi nýrra brotaþola árið 2020 talsvert minni, að líkindum vegna samfélagslegra takmarkana í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru, en margt bendir til þess að fjöldi nýrra brotaþola á árinu 2021 sé jafnvel meiri en árið 2019.

Þá er einnig nauðsynlegt að líta til þess hversu áhrifaríkt réttarkerfið er í að tryggja að gerendur í kynferðisafbrotum sæti refsiábyrgð vegna brota sinna og má líta til þess hversu stórt hlutfall gerenda í kynferðisbrotamálum er dæmt fyrir brot sín fyrir dómstólum. Af þeim 489 einstaklingum sem voru með ný mál hjá Stígamótum árið 2019 kærðu 75 einstaklingar ofbeldið til lögreglu, eða 12,2%. Af þeim 75 kærum sem lagðar voru fram var gefin út ákæra í 20 málum. Af þeim 20 málum þar sem ákæra var gefin út lauk þremur með sýknu. Í þremur tilvikum lauk málinu með skilorðsbundnum dómi en óvíst var um afdrif þriggja mála. Því má segja að sakfellingarhlutfall fyrir héraðsdómstólum hafi verið í kringum 3%. Ljóst hlýtur því að vera, óháð því hver raunverulegur fjöldi brota er, að aðeins lítið brot gerenda þarf að sæta refsiábyrgð fyrir brot sín. Þetta lága hlutfall sakfellinga, séð frá sjónarhóli þolenda, hlýtur að teljast óásættanlegt og kallar á aðgerðir eins og það að gera þolendum kleift að fara í einkamál. Fyrirliggjandi gögn benda til þess að ákærur séu aðeins gefnar út fyrir einn af hverjum tíu sem grunaður er um brot. Þetta er óásættanlegt.

Með frumvarpi því sem hér er flutt af þingmönnum allra flokka, þar á meðal mér, er lagt til að veitt verði lögbundin gjafsókn í einkamálum er varða sókn miska- og skaðabóta vegna kynferðisbrota sem og ofbeldisbrota milli nákominna. Það er vilji okkar sem flytjum frumvarpið að löggjafinn leggi þannig sérstaka áherslu á að styðja þolendur kynferðisafbrota og þolendur ofbeldisbrota í nánum samböndum með því að gera þeim auðveldara að sækja rétt sinn til skaða- og miskabóta þrátt fyrir niðurfellingu mála á rannsóknar- og ákærustigi eða sýknu í sakamáli. Við teljum eðli þessara brota og alvarleika þeirra réttlæta það að lögbundin gjafsókn sé veitt í þessum málum.

Sannleikurinn er nefnilega sá að þrátt fyrir að réttur brotaþola til málshöfðunar sé til staðar er í raun afar fátítt að þolendur kynferðisofbeldis leiti leiða til að fá staðfestingu á ábyrgð gerenda ofbeldis með þessum hætti. Þá er sannleikurinn einnig sá að það er ekki raunhæfur möguleiki fyrir stóran hluta brotaþola að sækja rétt sinn í einkamáli þar sem slíkt getur haft í för með sér mikla fjárhagslega áhættu. Það er mat okkar sem leggjum frumvarpið fram að með því sé stigið stórt skref í þá átt að brotaþolar geti leitað réttar síns þrátt fyrir að lögregla og ákæruvald felli málið niður.