153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

ástand vegakerfisins.

[15:36]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Það má lesa um það í fjárlögum að kostnaður bíleigenda var um 2,5% af landsframleiðslu fyrstu sjö, átta ár þessarar aldar. Nú er hann kominn niður í 1,2% af landsframleiðslu og hefur minnkað mjög miðað við annan kostnað.

Ég er sammála hv. þingmanni. Við eigum eftir að gera fullt af vegum og eru margir vegir of slæmir. Þess vegna er fínt að taka slíka umræðu reglulega. Varðandi Fljótaveginn eða ný göng í gegnum Siglufjarðarskarð þá er það eitt af þeim verkefnum sem eru í forgangi að rannsaka og koma á réttan stað, það er hluti af jarðgangaáætlun sem Vegagerðin hefur sett fram og verður auðvitað hluti af samgönguáætluninni sem við munum koma með inn í þing. Þá fer það í hendur þingsins að forgangsraða verkefnum, hvaða verkefni eiga að vera í fyrstu lotu og hver koma síðan á eftir. En verkefnin eru vissulega fjölmörg, eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á.