Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Fjölþáttaógnir og netöryggismál.

[15:38]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, fyrir að eiga við mig sérstaka umræðu um fjölþáttaógnir og netöryggismál. Eins og fram kom í sjónvarpsþættinum Kveik í gærkvöldi getum við gert sannarlega betur í þessum málaflokki. Netöryggi er aðeins hluti af fjölþáttaógnum en þær ógnir ná til mun fleiri þátta sem vert er að fara aðeins yfir. Hugtakið fjölþáttaógnir er mjög víðfeðmt og vísar til samstilltra aðferða aðila til að nýta sér kerfislega veikleika lýðræðisríkja, stofnana og hópa samfélagsins með það að markmiði að valda óæskilegum áhrifum og/eða skaða, svo sem með dreifingu falsfrétta, netárása, íhlutun í lýðræðislegt ferli, fjárfestingum í mikilvægum innviðum þar sem annarlegir hvatar búa að baki og tilraunum til að grafa markvisst undan stjórnvöldum og stofnunum. Í umræðu um fjölþáttaógnir eru oft nefndar leiðir sem farnar eru til þess að valda skaða án þess að beita hefðbundnum hernaði. Árásir geta verið fjölbreyttar og hægt er að beita þeim í skjóli leyndar og afdráttarlausar neitunar á ábyrgð, enda virða aðgerðir hvorki landamæri né skil á milli opinberra aðila og einkaaðila.

Almenningur er ekki undanskilinn hættunni af fjölþáttaógnum sem kann að vera beitt af óvinveittum ríkjum eða glæpahópum. Við endurskoðun þjóðaröryggisstefnu er því mikilvægt að áherslunni á fjölþáttaógnir og netöryggi sé gert hátt undir höfði. Við höfum á síðustu árum fjölmörg dæmi um fjölþáttaógnir, netárásir á innviði samfélags, svo sem netárásir á stofnanir, orkukerfi og fjármálakerfi, og eru þær staðreyndir, en einnig tilraunir til að hafa óæskileg áhrif á niðurstöður kosninga. Með tilkomu reiknirita eða algóritma má ná til einstaklinga og hópa og beina að þeim upplýsingum án þeirra vitundar sem áhrif hafa á skoðanir þeirra og hegðun.

Þrátt fyrir ofangreindar staðreyndir eru mikilvægt, virðulegi forseti, að við séum minnug þess að tæknin hefur aukið velmegun okkar og lífsgæði og langstærstur hluti hennar nýtist í friðsömum og hagfelldum tilgangi. Við þurfum að vera á varðbergi og vera skrefi á undan þróuninni sé þess einhver kostur. Besta leiðin að mínu mati og margra annarra er að skýr stefna stjórnvalda liggi fyrir með þátttöku alls samfélagsins, m.a. með því að leggja áherslu á lýðræðisleg gildi, upplýsingalæsi og árvekni í skólum og í samfélaginu. Annar veigamikill þáttur í árangri getur falist í því að berjast gegn upplýsingafölsun og þá með sannreyndum og áreiðanlegum opinberum upplýsingum sem öllum eru aðgengilegar. Alþjóðasamstarf er einnig gríðarlega mikilvægt til að tryggja og fyrirbyggja slíkar árásir. Atlantshafsbandalagið hefur lagt áherslu á umrædda þætti sérstaklega og tekur Ísland virkan þátt í þeim.

Virðulegur forseti. Ísland er efst á lista yfir netnotkun en þegar kemur að netöryggi þurfum við að gera mun betur. Við höfum til þess góð verkfæri. Við erum í hópi þeirra þjóða þar sem læsi er almennt, menntunarstig hátt og fáar hraðahindranir til staðar til aukinnar og markvissrar fræðslu. Á málþingi þjóðaröryggisráðs um fjölþáttaógnir kom fram að um 70% netsvika og fjölþáttaherferða virka vegna veikleika hjá einstökum notendum. Því er mikilvægt að auka árvekni og þekkingu okkar á hættum sem stafa af fölskum upplýsingum og tryggja örugga netumgengni.

Í apríl hélt utanríkisráðuneytið ráðstefnu um áhrif breytts öryggisumhverfis í Evrópu, netöryggi og varnir. Dr. Josef Schroefl, sérfræðingur hjá evrópska öndvegissetrinu um fjölþáttaógnir í Helsinki hélt erindi á ráðstefnunni og var haft eftir honum í fjölmiðlum að upplýsingastríð Rússa gegn frjálslyndum og lýðræðislegum löndum hefði aukist mikið. Tók hann fram að Ísland væri ekki beint skotmark en ekki væri nóg að hið opinbera og herir landa ynnu gegn netárásum heldur yrði einkageirinn að taka fullan þátt.

Útgangspunktur minn, virðulegi forseti, er því þessi: Eins og áður sagði eru netárásir aðeins hluti af vopnabúri fjölþáttaógna en sannarlega sá þáttur sem almenningur finnur hvað mest fyrir í sínu daglega lífi. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra, í ljósi aukinnar hættu sem samfélaginu kann að stafa af fjölþáttaógnum ásamt hröðum tæknibreytingum sem kunna að auðvelda framkvæmd þeirra, hvort stjórnvöld, atvinnulíf og samfélag séu nógu vel í stakk búin til að mæta þessum áskorunum og hins vegar hver sé framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar varðandi fjölþáttaógnir og netöryggismál hér á landi.