Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Fjölþáttaógnir og netöryggismál.

[15:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Friðriki Friðrikssyni fyrir að setja þessi mikilvægu mál á dagskrá. Ég ætla ekki að dvelja við skilgreininguna á fjölþáttaógnum því að hv. þingmaður fór mjög vel yfir hana í ræðu sinni en í stuttu máli má segja að þessar fjölþáttaógnir, sem eins og hv. þingmaður sagði svo réttilega virða engin landamæri, virða ekki mörk hins opinbera og einkarýmis, geta verið svo margháttaðar að það er erfitt að bregðast við þeim þannig að allar varnir haldi. Einmitt þess vegna hafa þessi mál verið í forgangi hjá þjóðaröryggisráði á undanförnum árum, netöryggismálin þar einna efst á baugi, enda er samfélagið allt orðið gríðarlega háð tæknilegum innviðum, fjarskiptainnviðum, í öllum sínum störfum og í daglegu lífi. Við höfum séð netárásum beitt sem hluta af fjölþáttaaðgerðum, t.d. með árásum á mikilvæga innviði og/eða samfélagslega mikilvæga þjónustu og opinberar stofnanir með það að markmiði að vega að áfallaþoli samfélaga. Ég vil segja það hér að áfallaþol samfélagsins er það markmið sem við eigum að vera að vinna með, hvernig við getum aukið áfallaþolið. En um leið held ég að það sé ágætt að velta upp hugtaki sem við höfum verið að ræða á vettvangi þjóðaröryggisráðs sem er hugtakið stafrænt sjálfstæði, þ.e. hvernig við tryggjum í fullvalda ríki að við séum í raun og sann sjálfstæð í hinum stafræna heimi. Það er algjört lykilatriði til að takast á við fjölþáttaógnir. Tilgangur slíkra ógna getur nefnilega verið margháttaður, alveg eins ógnirnar eru fjölþættar. Tilgangurinn getur verið að grafa undan lýðræði og samfélagslegri samheldni, mannréttindum, samskiptum ríkja á alþjóðavettvangi og það geta verið opinberir aðilar og það geta verið einkaaðilar sem beita slíkum tækjum. Hraði nýrrar tækni gerir það að verkum að áhrifin geti orðið mjög öflug og skyndileg.

Ég vil segja við fyrri spurningu hv. þingmanns, sem snýst um það hvort við séum nægjanlega vel í stakk búin til að takast á við þetta, að ég held að enn sé töluvert verk óunnið svo að við segjum það bara heiðarlega. En ég vil líka segja að á undanförnum árum hefur gríðarlega mikið breyst á Íslandi til batnaðar í því að efla áfallaþol samfélagsins og gera okkur betur í stakk búin til að takast á við þessar ógnir. Ég vil nefna átak sem ráðist var í til uppbyggingar innviða í kjölfar ofsaveðurs sem gekk yfir landið í desember 2019. Þar var sett af stað mikil vinna til að greina áfallaþol samfélagsins, orkuinnviða, fjarskiptainnviða, samgönguinnviða og lagðar fram gríðarlega víðtækar tillögur, 540 aðgerðir á sviði orkumála, fjarskipta, samgangna, almannavarna og samhæfingar. Það er verið að vinna að þessum aðgerðum og sú vinna er á áætlun.

Ég vil nefna átak á vegum ríkislögreglustjóra í samræmi við stefnu okkar í almannavarna- og öryggismálum sem snýr að heildarskoðun áfallaþols í íslensku samfélagi. Þar samræmir almannavarnasvið ríkislögreglustjóra og leiðir vinnu við að kanna áfallaþol mikilvægra innviða og íslensks samfélags. Markmiðið er að innan tveggja ára hafi öll ráðuneyti og 80% sveitarfélaga lokið því að kanna áfallaþol sinnar starfsemi eða þeirrar starfsemi sem heyrir undir ábyrgðarsvið þeirra og að allri þeirri vinnu verði síðan lokið við árslok 2024, þ.e. að það verði þessi fyrri áfangi við árslok 2023 og allri vinnunni verði lokið fyrir árslok 2024.

Ég vil nefna hlutverk háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis sem hefur kynnt nýja aðgerðaáætlun í netöryggismálum, enda fer það ráðuneyti með málefni fjarskipta. Þar kom auðvitað fjöldi ráðuneyta og stofnana að mótun og framkvæmd aðgerða, enda er þetta þverfaglegt viðfangsefni. Þar er verið að fjalla um svo margháttaða þætti, til að mynda bara þætti eins og menntun, bæði hina tæknilegu menntun í netöryggismálum en ekki síður hina almennu menntun okkar allra til að takast á við upplýsingaóreiðu, falsfréttir og annað slíkt. En það er líka verið að greina valdheimildir stjórnvalda vegna alvarlegra netárása, ekki síst í þeim aðstæðum þegar netárás getur leitt til almannavarnaástands og þar er líka verið að horfa á heimildir netöryggissveitar Fjarskiptastofu sem og valdheimildir lögreglu og nauðsynlegt samspil þeirra.

Hvað varðar heildarmyndina sem hv. þingmaður nefndi — þetta er stuttur tími sem hér er undir — þá vil ég vekja athygli á því að við höfum verið að fjalla um þjóðaröryggisstefnuna og endurskoðun hennar og von er á þingsályktunartillögu til umfjöllunar hér sem hefur verið til umræðu í þjóðaröryggisráði og við höfum átt einn fund í hv. utanríkismálanefnd um þá endurskoðun. (Forseti hringir.) Ég held að það sé tækifæri þar til að skerpa enn betur á þeim þáttum sem lúta að fjölþáttaógnum sem er einmitt það sem við (Forseti hringir.) þurfum að vera svo meðvituð yfir og er svo flókið en um leið brýnt viðfangsefni.