154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[18:04]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég vildi bæta við þessa spurningu í því samhengi hvort það væri vilji innan ráðuneytisins til að breyta einhverju sem færi inn í 2. umræðu varðandi tekjur, vegna þess að þetta er einn af fáum hlutum sem átti að sækja auknar tekjur til. Ég hef fullan skilning á því að forsendur geta breyst en við erum líka að eiga við mjög þröngan aðhaldsramma í fjárlaganefnd þessa dagana. Það er verið að sækja fjármagn fyrir aðra þætti sem fara væntanlega í 2. umræðu og ég hef ákveðnar áhyggjur af því ef þessi 1 milljarður er farinn hér og það bætast við önnur útgjöld á móti í millitíðinni að við lendum í allt öðru aðhaldi núna í aðdraganda samþykktar þessara laga.

Mig langaði líka að bæta við og spyrja, fyrst hæstv. ráðherra kom inn á það, hvað hún búist við að sjá inni í fjármálaáætlun þegar kemur einmitt að endurskoðun á gjöldum í tengslum við ferðaþjónustuna, vegna þess að þessi viðamikla vinna stendur núna yfir og það stendur til að kynna hana mjög fljótt fyrir ferðamálaráðherra. Telur hún að það verði einhverjar upphæðir sem um ræðir í fjármálaáætlun?