154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:00]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þá er næst að spyrja hana í þessu samhengi, ef þetta á ekki við núna í fjáraukanum, hvort það verði komið með breytingar inn í 2. umræðu fjárlaga varðandi rekstrarstöðu Landhelgisgæslunnar. Það lá fyrir að til viðbótar við þessar 600 millj. kr., sem eru uppsafnaðar í halla þessara mikilvægu stofnana þar sem er búið að skera við nögl svo mikið að þar er byrjað að selja út fjárfestingarkosti og tækjakost, að það stefnir í 700 millj. kr. halla á næsta ári miðað við núverandi fjárlög. Ég vek athygli á að þetta er ekki til að styrkja þjónustuna, þetta er til að halda óbreyttri þjónustu. Ég vek bara athygli á því og ítreka mikilvægi þessara stofnana, sérstaklega í núverandi umhverfi. Við erum t.d. ekki með TF-Sif til að mynda þá atburði sem núna eru í gangi, hún er í leigu á Sikiley af því að það er ekki til rekstrarfjármagn til að halda þessari vél gangandi. Þannig að ég spyr hæstv. ráðherra: Verður þá komið með aukafjármagn inn í 2. umræðu fjárlaga fyrir Landhelgisgæsluna?