154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:03]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir 1. umræðu fjáraukalaganna. Það er nú ýmislegt sem mér og okkur í Flokki fólksins liggur á hjarta hvað það varðar. Við höfum gjarnan komið með breytingartillögur við fjáraukann sem snúa að því að koma til móts við erfiðar aðstæður í samfélaginu og lúta að fólkinu fyrst. Mig langar að nefna sérstaklega að við erum glöð með að sjá að strax við 1. umræðu sé verið að tryggja jólabónus til öryrkja. Við höfum talið að það sé eðlilegt og vorum algerlega búin að draga niður rúmlega 2.000 eldri borgara fyrir fjáraukann í fyrra. Við erum að kalla eftir því að um 2.000 eldri borgarar sem eingöngu eru á framfærslu eða með greiðslur frá Tryggingastofnun, sem eru í rauninni þeir einstaklingar sem eru langfátækastir, með langminnstu greiðslur sem hægt er að fá í íslensku samfélagi, lægra en öryrkjarnir okkar líka — við erum að kalla eftir því að fá inn um 138 millj. kr. til þess að koma til móts við ríflega 2.000 eldri borgara með því að þeir fái þann sama jólabónus og almannatryggingaþegar aðrir. Þetta eru ríflega 66.000 kr. sem munu algerlega skipta þetta fólk sköpum.

Einnig finnst mér athyglisvert og sakna þess að sjá hvergi nokkurs staðar getið um það að það eigi að koma með einhverja aukna fjármuni til að bregðast við hinum gríðarlega fíkniefnavanda sem er hér á ferðinni. Við vitum að hér eru um 700 einstaklingar á biðlista inn á sjúkrahúsið Vog. Við munum einnig óska eftir breytingu hvað fjáraukann varðar í þá áttina að koma til móts við þann vanda, samanber að við erum búin að fá frá Hjálparstarfi kirkjunnar, Fjölskylduhjálp Íslands og öllum sem koma að því að taka utan um þá sem bágast eru staddir í samfélaginu og standa í röðum til að biðja um mat, (Forseti hringir.) upplýsingar um það að aldrei, ekki í áraraðir, hafi verið önnur eins örbirgð og önnur eins neyðaróp eins og nú. (Forseti hringir.) Munum við eiga von á því að það verði vel tekið utan um breytingartillögu Flokks fólksins um það að veita auknu fé til hjálparstofnana sem eru að taka utan um okkar langminnstu bræður og systur?

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir á takmarkaðan ræðutíma í andsvörum.)