154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:09]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra varðandi eingreiðslu til aldraðra. Hún segir að sú ábyrgð sé skýr af hendi sveitarfélaga, hvort hún gæti aðeins útskýrt það nánar. Ég minni á að í fjáraukalagafrumvarpinu er minnt á eingreiðslu til öryrkja- og endurhæfingarlífeyrisþega, 1.600 milljónir. Það er í fjáraukalögum sem eru undir sömu sök sett varðandi tímabundin, ófyrirséð og óhjákvæmileg útgjöld innan fjárlagaársins. Hver er munurinn á þeim og öldruðum? Ég get ekki séð að það eigi ekki það nákvæmlega sama við um aldraða, þetta eru tímabundnir erfiðleikar vegna verðbólgu og öðru slíku. Ég get ekki séð annað en að ábyrgð ríkissjóðs sé skýr hvað þetta varðar, alveg eins og hjá öryrkjunum, það sé ekki á ábyrgð sveitarfélaga svo það liggi skýrt fyrir. Það væri gott að fá að heyra hæstv. fjármálaráðherra skýra þetta nánar fyrir okkur.

Annað sem mig langar að spyrja um er almenni varasjóðurinn þar sem er heimild til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins líka, sem er ekki unnt að bregðast við með öðrum hætti samkvæmt lögum um opinber fjármál. Hér segir, með leyfi forseta:

„Ekki hefur verið tekin ákvörðun um frekari ráðstöfun úr sjóðnum og er því til staðar tæplega 3,8 ma.kr. svigrúm til að bregðast við óvæntum og óhjákvæmilegum útgjöldum, s.s. vegna jarðhræringa og mögulegra eldsumbrota á Reykjanesi fyrir lok þessa árs ef til þess kæmi.“

Spurningin er þessi: Í hvað eiga þessir peningar að fara, 3,8 milljarðar? Ég minni á að varðandi þær framkvæmdir, varnir fyrir innviði á Reykjanesskaganum vegna eldsumbrotanna, var markaður sérstakur tekjustofn. Það var lagt í það að setja sérstakan skatt frá 1. janúar næstkomandi. Við í stjórnarandstöðunni, fjórir flokkar, bentum einmitt á varasjóðinn. Þetta eru framkvæmdir (Forseti hringir.) upp á 2,5–3 milljarða. Í hvað eiga þessir peningar að fara, þessir 3,8 milljarðar? Er þegar búið að huga að ráðstöfun þeirra varðandi eldsumbrotin á Reykjanesi? Í hvað eiga þeir að fara?