154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Líkt og ég fór yfir hérna í framsögu áðan þá hefur undanfarin ár verið tekin sérstök ákvörðun um eingreiðslu í desember til þessa hóps sem hér um ræðir. Þar sem heildarendurskoðun á örorkulífeyriskerfinu er ekki lokið er lagt til að örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar fái einnig eingreiðslu í desember á yfirstandandi ári. Varðandi hinn hópinn erum við búin að fara í gegnum ákveðnar kerfisbreytingar og svo því til viðbótar þá er ég einfaldlega að benda á lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og það öryggisnet, það kerfi sem á að grípa, þar sem markmiðið er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar og þar af leiðandi er það verkefni skýrt.

Varðandi 3,8 milljarðana er þeim enn þá óráðstafað það sem eftir er af árinu og það liggur auðvitað ekki fyrir núna að hvaða leyti sjóðurinn verður nýttur, verði talin þörf á að nýta hann, sem ég geri frekar ráð fyrir ef hlutir halda áfram að þróast á Reykjanesinu. Það eru þá útgjöld sem uppfylla skilyrði fyrir að það sé tekið úr almennum varasjóði og það er ágætt að eiga eitthvað eftir þegar árið er ekki liðið og við erum í eins mikilli óvissu og raun ber vitni. Varðandi sjóðinn þá er hann auðvitað hugsaður sem forvarnasjóður, til uppbyggingar ákveðinna verkefna sem forvörn og er þá viðbót við það sem við höfum nú og þess vegna tel ég það svo sem alveg liggja skýrt fyrir. Ég tel það hið ábyrga í stöðunni vegna þess að ef við verðum ekki svo guðs lifandi heppin að ekkert gerist þá er alveg ljóst hvaða verkefni ríkissjóður þarf að glíma við og ekki síður bara hagkerfið í heild sinni og þá tel ég mikilvægt að við nálgumst þau verkefni af ábyrgð vegna þess að á endanum eru það bara tæplega 400.000 manns í þessu landi sem munu greiða fyrir það sem greiða þarf og þess vegna skiptir máli hvernig þetta er gert.