154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:23]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Ég tel og við í Flokki fólksins að það sé afskaplega mikilvægt að við viðurkennum stöðu þúsunda samlanda okkar á þessum tímapunkti sem eru að ganga í gegnum það sem hæstv. fjármálaráðherra benti á áðan. Við höfum verið að tala um gríðarlega mikil áföll, stórkostlegar vaxtahækkanir og verðbólgu sem er langt yfir öllu því sem við viljum sjá, verðbólgu upp á 8,25%. Á hverjum bitnar allt þetta? Það bitnar á fólkinu í landinu, bitnar mest á almenningi og skuldsettum einstaklingum og litlum og millistórum fyrirtækjum. Það segir sig algjörlega sjálft. Nú erum við að fjalla hér um fjáraukalög, lögin sem eiga að taka á hinu ófyrirséða til skamms tíma, einhverju óvæntu sem við fáum allt í einu í fangið. Það er ekkert óvænt að hér skuli fólk vera hneppt í sárafátækt. Það er ekki óvænt. Það er algerlega mannanna verk. Það hefur verið vilji ríkjandi stjórnvalda hér að halda þúsundum í svo rammgerðri fátæktargildru að þeir eiga sér ekki viðreisnar von og hafa í rauninni ekki einu sinni möguleika eða tækifæri á því að reyna að bjarga sér úr því öðruvísi en að vera skertir og refsað fyrir. Þó að þeir reyni fyrir sér á vinnumarkaði standa þeir eftir með sáralítið sem ekki neitt. Í rauninni er hvatinn til sjálfsbjargar enginn. Hvati frá þessari ríkisstjórn til þess að hvetja fólkið okkar til sjálfsbjargar er enginn.

Við í Flokki fólksins höfum ævinlega komið með einhverjar breytingartillögur við fjáraukalagafrumvarpið. Við munum gera það áfram. Gleðin er sú að nú skuli strax vera komið inn í frumvarpið jólabónus til handa öryrkjum sem hefur verið greiddur út núna fyrir tvenn síðustu jól og hefur skipt sköpum, algjörum sköpum fyrir þann þjóðfélagshóp þrátt fyrir að betur megi ef duga skal. Þess vegna er það eiginlega með hreinum ólíkindum hversu snúið það er og hversu erfitt það er að fá stjórnvöld, ríkisstjórnina, til að taka utan um sárafátæka eldri borgara, fullorðið fólk sem á engan lífeyrissjóð, hefur engin réttindi, hefur ekki krónu umfram þá hungurlús sem greidd er úr almannatryggingum. Þetta er fátækasta fólkið í landinu og við í Flokki fólksins viljum ekki og munum aldrei samþykkja að mismuna því svona hrapallega eins og virðist eiga að gera nú. Við höfum tækifæri og ég vil trúa því að ef við tökum höndum saman hér og nú, í gegnum umræðurnar núna um fjáraukalögin, þá muni ríkisstjórninni, ríkisvaldinu og hæstv. fjármálaráðherra snúast hugur hvað lýtur að því að koma með ríflega 130 millj. kr. til þessa fátækasta þjóðfélagshóps.

Það hefur komið fram hér áður að við getum ekki notað sömu krónuna tvisvar, þó að mér finnist það stundum orka tvímælis, því að það hefur stundum virst þannig að stjórnvöld og fleiri haldi að við getum notað sömu krónurnar tvisvar, jafnvel þrisvar og hugsanlega fjórum sinnum. Það er alveg frábær peningamaskína sem getur í rauninni prentað svoleiðis töfrakrónu að það er hægt að nota hana margsinnis. En það breytir ekki þeirri staðreynd að ég trúi því og ég vil trúa því að það muni verða hugarfarsbreyting þannig að við munum greiða jólabónus til þeirra sem eru langefnaminnstu og fátækustu eldri borgararnir hér. Ég ætla að setja þessar ríflega 130 milljónir í samhengi við fjölmiðlastyrk af því að við getum ekki notað sömu krónuna tvisvar. Ég hefði t.d. persónulega og prívat frekar notað 107 milljónir til að hjálpa sárafátæku gömlu fólki núna fyrir jólin og gleðja það með jólabónus heldur en að setja þær í t.d. fjölmiðil sem í rauninni rekinn af stórútgerðarauðmanni. Það hefði ég nú gert. Mér finnst í rauninni óverjandi að íslenskir skattgreiðendur skuli vera látnir greiða fjármuni til auðmanna sem halda úti fjölmiðlum. Mér finnst líka óverjandi að setja milljarð í bílaleigur í nafni þess að verja loftslagið. Milljarður í bílaleigur sem hafa aldrei skilað öðrum eins hagnaði eins og akkúrat núna. Og hvers vegna skyldum við setja annan milljarð í stórútgerðir sem gætu hugsanlega sett einhvern rafmótor í bát? Ég bara spyr. Þær hafa efni á því að gera það sjálfar. Íslenskir skattgreiðendur þurfa ekki að koma að því.

Við í Flokki fólksins segjum: Við forgangsröðum fjármunum fyrir fólkið fyrst. Það er algjört grundvallaratriði. Það er grundvallarstefna Flokks fólksins og ég er stolt af henni. Hér erum við búin að tala um í mörg ár þá neyð sem ríkir á Íslandi hvað lýtur að fíknisjúkdómum. Við erum búin að tala um það að allt að 700 einstaklingar bíði við þröskuldinn á sjúkrahúsinu á Vogi eftir því að komast í meðferðarúrræði, eftir að komast á sjúkrahús til að verða afeitraðir, fá að losna við eitrið og fá að byggja upp framtíðarsýn, komast í meðferð. Hvernig stendur á því að nokkuð stjórnvöld láta svona viðgangast? Hvers vegna er sjúkdómurinn ekki viðurkenndur af heilum hug sem sjúkdómur þannig að enginn sem þess þarf sé látinn bíða eftir hjálpinni? Það deyja margir, margir á hverju einasta ári ótímabærum dauða á þessum biðlista. Ég veit ekki betur en að við eigum hér 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Hvað segir nú í þessari 1. mgr.? „Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar …“ Aðstoðar vegna hvers? Vegna örorku, elli, örbirgðar, bara nefnið það. Okkur hér á hinu háa Alþingi, ef við vildum líta á stjórnarskrána einu sinni sem okkar grundvallarlöggjöf, ber skylda til að fylgja henni en það er ekki gert. Þessi löggjöf, þessi 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar er þverbrotin á þegnunum hvern einasta dag í boði stjórnvalda. Það er ekki öllum sem þess þurfa með lögum tryggður réttur, hvorki til fæðis, klæðis, húsnæðis né heilbrigðisþjónustu, það bara liggur algerlega á borðinu.

En á sama tíma er allt í lagi að ausa peningum í eitthvað allt annað sem nýtist þessu fólki í sárri neyð akkúrat ekki neitt, samanber það sem við erum að fá í andlitið núna, samanber það sem við erum að heyra núna og er sárara en tárum taki. Það er erfitt að þurfa að standa hér skipti eftir skipti og tala um sömu hlutina, biðja um hjálp fyrir fólkið okkar sem líður skort. Það hefur komið í ljós hjá Hjálparstarfi kirkjunnar að aldrei hefur verið annað eins ákall til þeirra og önnur eins neyð og nú, fólk sem þau hafa ekki séð í mörg ár, hafði áður þurft að leita aðstoðar hjá þeim en var búið að koma undir sig fótunum og hafði það bara ágætt í samfélaginu, er að koma aftur. Hvað segir það sitjandi ríkisstjórn, hvað segir það þeim sem eiga að tryggja þessu fólki með lögum rétt til þess, ef það þarf á að halda, að lifa sómasamlegu lífi? Það er alveg sama hvert við lítum, hvort það er Mæðrastyrksnefnd, Fjölskylduhjálp Íslands, allir þeir aðilar sem eru að úthluta mat til fátækra fjölskyldna eru að bugast undan álagi vegna þess að þeir geta ekki einu sinni uppfyllt þörfina, hafa ekki nóg og einhverjir verða frá að hverfa. Ég hef orðið vitni að því hvernig raðirnar hafa myndast fyrir framan t.d. Fjölskylduhjálpina, hvernig mæður hafa staðið í kulda með barnavagninn og hangandi börn í pilsinu og bíða heillengi eftir að komast inn í þeirri góðu von að geta farið út með einhverja matarpoka til þess að börnin þeirra fari ekki söng að sofa á kvöldin. Hvers lags stjórnvöld eru það sem geta státað af svona samfélagi? Ég hef lítilsvirðingu fyrir svona stjórnvöldum. Ég hef lítilsvirðingu fyrir svona stjórnmálum. Okkur ber skylda til að hugsa um fólkið okkar fyrst og fremst.

Enn einu sinni komum við með breytingartillögur við fjáraukann þar sem við erum að óska eftir auknu fjármagni, þar sem við erum að biðja um stuðning til fólks í sárri neyð. Það tekur einn dag að setja hér aukaskatta á sem í rauninni stóð alltaf til að setja á, að nota tækifærið bakdyramegin í neyðinni sem nú ríkir og hættuástandinu sem hefur skapast í Grindavík. Það er allt í lagi núna að koma með aukaskatt og skella honum á alla landsmenn í stað þess að nota varasjóðinn og þá fjármuni sem ætlaðir eru og markaðir eru í slík verkefni. Og hvað erum við að setja í og hvað erum við að vernda? Við erum ekki bara að vernda innviðina gagnvart orkunni sem allt Reykjanesið býr við, við erum að byggja fyrir milljarða utan um rosalega flott og stórt orkuver HS orku sem er búið að greiða sjálfu sér núna á örfáum árum tugi milljarða í arð. Við erum að tala um Bláa lónið sem er verið að vernda líka ef þessar hörmungar ríða yfir, sem hefur líka verið að greiða sér tugi milljarða í arð. Við í Flokki fólksins munum koma með þingsályktunartillögu þar sem við felum ríkisstjórninni að koma með útfærslu á því hvernig við náum þessum peningum til baka í okkar ríkissjóð. Það væri þá hugsanlegt, ef hjarta þeirra slær einhvern tíma í takt við þá sem eiga bágt í þessu samfélagi og þau geti stigið niður úr fílabeinsturninum einhvern tímann og mætt fólkinu sem er í neyð, það væri þá áhugavert að sjá hvort þau hafi þá efni á því að gefa þeim mat á diskinn.

Ég ítreka það enn og aftur: Það er frumskylda stjórnvalda að sjá til þess að vernda þegnanna, að sjá til þess að allir hafi fæði, klæði, húsnæði, heilbrigðisþjónustu og félagslegan stuðning sem þurfa á að halda. Það er skömm stjórnvalda sem vita af örbirgð úti í samfélaginu að bregðast ekki við því. Slík stjórnvöld eru ekki hæf til að stjórna. Það liggur algjörlega á borðinu. Þessi stjórnvöld sem ítrekað fleygja inn handklæðinu og horfa á skútuna sökkva eiga að finna sér eitthvað annað að gera.