131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Áhrif verðsamráðs olíufélaganna á skatttekjur ríkissjóðs.

[15:47]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við getum öll verið sammála um að í frjálsu markaðskerfi eins og er hér á Íslandi eigi alls ekki að eiga sér samráð á markaði, hvort sem er á milli olíufélaga eða annarra fyrirtækja á markaði. Slíkt grefur undan frjálsu markaðshagkerfi.

Málflutningur háttvirts málshefjanda er hins vegar nokkuð farsakenndur þegar horft er til hlutverks ríkisins. Virðisaukaskatturinn leggst í öllum tilfellum á það vöruverð sem verður til á markaði, hvernig sem það verð er ákveðið. Ríkið getur ekki talist þjófsnautur eða hafa stolið fjármunum í neinu tilfelli, þegar um almenna skattlagningu er að ræða. Ríkið er almenningur, sami almenningur og borgaði bensín, olíur og virðisaukaskatt ofan á þær vörur.

Ríkissjóður fékk tekjur af virðisaukaskattinum en ríkissjóður deildi þeim tekjum aftur út til almennings. Við getum ekki fullyrt að það hafi verið nákvæmlega sama fólkið sem naut góðs af þeirri útdeilingu og þeir sem greiddu skattana enda er það sjaldnast hægt þegar um tekjur og útgjöld ríkisins er að ræða.

Við sem höfum þá pólitísku skoðun að umsvif ríkisins eigi að vera sem minnst í daglegu lífi fólks og í hagkerfinu yfirleitt getum verið sammála því að sá vöxtur ríkisumsvifa sem af þessu leiddi hafi verið óheppilegur. En vegna almenns eðlis þessarar skattlagningar er ljóst að aldrei verður hægt að greiða sömu einstaklingum til baka og greiddu virðisaukaskattinn í upphafi. (Gripið fram í.)

Tilvísanir hv. þingmanns í eðlilegar leiðréttingar á einstaklingsbundnum skattgreiðslum eru gjörsamlega út í hött. Þegar litið er til pólitískra áherslumála hv. þingmanns í gegnum tíðina, sem yfirleitt hafa kallað á útgjaldaaukningu ríkissjóðs, verður málflutningurin enn sérkennilegri. Lækkun bensíngjalds í þessu samhengi er jafnframt fráleit.

Hæstv. forseti. Hag almennings er best borgið með því að nú skuli samráði olíufélaganna lokið og meðferð málsins gangi sinn veg í réttarkerfinu. Hin góðu áhrif frjáls markaðshagkerfis fá nú að njóta sín almenningi til hagsbóta.