136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[15:33]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að hæstv. dómsmálaráðherra hefði verið nær að svara þeim ábendingum og spurningum sem hv. þm. Atli Gíslason beindi til hans. Greinilegt er að það svíður undan því að menn velti fyrir sér vanhæfi hæstv. dómsmálaráðherra til þess að fara með þessi mál enda hafa slíkar hugsanir ratað inn í dómssali eins og hæstv. ráðherra skýrði frá áðan.

Hæstv. ráðherra hafði uppi stór orð um hv. þm. Atla Gíslason sem ég endurtek að þurfti að vera við önnur skyldustörf klukkan þrjú. Hann sagði að hv. þingmaður hafi farið með rangt mál. Hann var furðu lostinn — og þingmaðurinn hefði farið með dylgjur.

Ég mótmæli þessum orðum aftur og tel að það sé ekki tilefni til þess að veitast svona að fjarstöddum mönnum í þessum sal, frú forseti.