137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[11:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni og hv. þm. Eygló Harðardóttur. Hér er um það að ræða, og það hefur komið sérstaklega vel fram í umræðum í þinginu, að þessi grein er hugsuð af þingmeirihlutanum til að ríkisvæða sparisjóðina og það hefur margoft komið fram að það eru engar áætlanir um það hvernig ríkið ætli að koma sér út úr þessum rekstri. Þvert á móti kom það skýrt fram, og ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir hreinskilnina, að það er ekki verkefni þessarar ríkisstjórnar að koma ríkinu út úr fjármálastofnunum, ekki verkefni þeirra. Það vita það allir sem þekkja til sparisjóðanna að ríkisvæddir sparisjóðir eru ekki sá hornsteinn í héraði eða þær styrku fjármálastofnanir sem við viljum sjá.