139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða fyrir þingið til að fara ofan í saumana á dæmalausri stjórnsýslu hæstv. fjármálaráðherra í Árbótarmálinu. Við skulum ekki gleyma því að staða hæstv. fjármálaráðherra er allt önnur en annarra þingmanna, enda vopnabúr hans mikið þar sem hann hefur lykilinn að ríkiskassanum í vasanum.

Hefur hann nú beitt þessu valdi þannig að hann beitti hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra hótunum um að taka heilan málaflokk í gíslingu verði ekki farið að vilja hæstv. fjármálaráðherra. Ofan í kaupið fór hæstv. fjármálaráðherra með rangt mál í þinginu í gær þegar hann sagði að málið hefði verið í höndum félagsmálaráðuneytisins, eða hann sagði, með leyfi forseta, að það hefði verið „í þess höndum að taka við málinu eftir að Barnaverndarstofu og rekstraraðilum heimilisins mistókst að ná samkomulagi um lyktir mála“.

Hæstv. fjármálaráðherra skrifaði tölvupóst sinn 22. janúar, tveimur mánuðum áður en Barnaverndarstofu var skipað að segja sig frá málinu. Hæstv. fjármálaráðherra var kominn á bólakaf í málið og farinn að senda tilskipanir og hótanir strax frá upphafi. Ég spyr nú hér, ekki síst með vísan til látlausra ræðuhalda um stöðu þingsins og mikilvægis þess að eftirlitshlutverk þess með framkvæmdarvaldi sé virkt: Á að sætta sig við svona háttalag?

Ég tel augljóst að Ríkisendurskoðun og umboðsmaður Alþingis taki þetta mál til skoðunar að eigin frumkvæði, enda eru þetta þau tæki sem þingið hefur. Ég vil líka að viðkomandi þingnefndir, hv. félagsmálanefnd og hv. fjárlaganefnd sem hefur í nógu að snúast, skoði þetta mál án tafar.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur sýnt hvernig honum finnst rétt að beita sér til að berja menn til hlýðni. Allur ríkiskassinn er undir og ofan í kaupið kaus hann að fara með rangt mál á Alþingi í gær um leið og hann sakaði embættismenn um leka þegar þeir brugðust við með eðlilegri upplýsingagjöf til fjölmiðla. Alþingi getur ekki (Forseti hringir.) setið undir svona vinnubrögðum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)