139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[18:41]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra vill ekki ræða þetta út frá einstökum málum en þetta var tæmandi listi mála sem þessum lögum var beitt á þannig að við getum sagt að ég hafi farið yfir öll málin sem þeim var beitt á. Þetta er það sem góðviljaðir stjórnmálamenn segja alltaf, að þeir hafi ofurtrú á ágæti fólks. Svo bara breytast tímarnir en lögin standa eftir. Það setti enginn þessi lög eftir kreppuna miklu í Bandaríkjunum í þeirri trú að þeim yrði beitt á þennan hátt á McCarthy-tímabilinu.

Hitt er annað mál að ég get verið sammála hæstv. fjármálaráðherra um að ef rökstuddur grunur leikur á því að menn séu að stela vörslusköttum finnst mér ekki nein ástæða til annars en að eignir þeirra séu frystar þannig að þeir komist ekki upp með þann þjófnað. Dæmið sem ég notaði snerist hins vegar akkúrat ekki um það, það snerist um túlkun og deilu milli skattyfirvalda og fyrirtækis sem var búið að leggja inn á reikninga, depónera fyrir þeim kröfum sem voru gerðar á það, fyrirtækis sem átti gríðarlega miklar eignir á bankareikningum. Þess vegna var þetta mál jafnsvívirðilegt og það var, þess vegna geld ég varhuga við þessu. Fyrsta málið sem þetta var notað í var mjög óréttlátt. Það var skattaleg deila eins og er alltaf í gangi á öllum tímum í öllum þjóðfélögum. (Forseti hringir.) Það er málið.