140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:47]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Við sjálfstæðismenn lögðum til haustið 2009 að farin yrði sú leið sem hér er verið að leggja til, en það var í samhengi við það að skorið yrði niður í ríkisútgjöldum og komið í veg fyrir að gripið yrði til skattahækkana á heimilin í landinu. Þessi tillaga sem við lögðum fram var hluti af okkar efnahagsprógrammi. Ég get því ekki stutt þá útfærslu sem hér er lagt upp með, að þessir fjármunir verði notaðir meðal annars til að greiða fyrir útgjöld ríkissjóðs, þó að ég geti sagt að ég hafi ákveðna samúð með þeirri hugmynd að greiða niður skuldir með þessum peningum. Tillaga okkar gekk út á það að þetta væri í samhengi með öðrum þáttum sem sneru meðal annars að fjárfestingu en fyrst og síðast að koma í veg fyrir skattahækkanir á heimilin í landinu. Þess vegna, frú forseti, mun ég sitja hjá.