140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Skuldasöfnun gærdagsins eru skattar dagsins í dag. Það er þess vegna fagnaðarefni að tekist hefur að loka þessum erfiðu fjárlögum án þess að leggja nýjar álögur á venjulegt fólk og fyrirtæki í landinu. Það tekst með því að hér er umtalsverður hagvöxtur á þessu ári og það er ánægjuefni eftir þær deilur sem hér voru um tekjugrunn fjárlaganna að tölurnar í morgun, um 3,7% hagvöxt á fyrstu níu mánuðunum og 4,7% hagvöxt sem hvorar tveggja er mjög mikill hagvöxtur í alþjóðlegum samanburði, styrkja mjög undirstöður fjárlagafrumvarpsins og auka líkur á því að þessar fyrirætlanir gangi eftir á næsta ári og að héðan í frá séum við ekki lengur að fást við hrun heldur sé viðfangsefni stjórnmálanna vöxtur á ný.