140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:43]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Tillagan sem við greiðum atkvæði um núna frá hv. fulltrúa Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd felur í sér hækkun bóta atvinnulausra og lífeyrisþega. Þessi tillaga er samhljóða tillögu sem við hv. þm. Atli Gíslason fluttum við 2. umr. og sendum til fjárlaganefndar í þeirri von að meiri hlutinn vildi standa með þeim sem lökust hafa kjörin.

Frú forseti. Nú hefur komið í ljós að hin svokallaða norræna velferðarstjórn ætlar sér ekki að standa með þeim sem höllustum fæti standa í samfélaginu. Það munum við h. þm. Atli Gíslason gera, enda vorum við kosin til þess að standa vörð bæði um velferðina og fólkið í landinu.