143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður kallar gagnrýni, en það sem minni hluti hv. fjárlaganefndar setur fram í sínu nefndaráliti eru áhyggjur af því að staða heilbrigðisstofnananna er mjög erfið og bendir á að það muni valda vandræðum á árinu 2014 þar sem einnig er gert ráð fyrir sameiningu heilbrigðisstofnana. Það veldur örugglega vandræðum ef það á að fara út í slíkar aðgerðir sem eru þó umdeilanlegar, að ekki sé meira sagt, og á auðvitað eftir að skoða betur. Það hlýtur að skapa þar vandræði, það sjá allir, ef stofnanirnar fara með mikinn rekstrarhalla með sér í slíkar sameiningar. Við lýstum áhyggjum okkar af þessari stöðu.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur lag á því að búa til ágreining og deilumál um hluti sem engin ástæða er til. Ég fullyrði að það er sátt á Alþingi um að fara í það að bæta heilbrigðiskerfið. Við leggjum öll saman um að gera það, en þá er ástæðulaust að búa til úr því eitthvert deiluefni fyrir fram.

Auðvitað varð hér hrun. Það er leiðinlegt að þurfa að minna fólk á það. Við glímdum hér við mikinn efnahagsvanda, við náðum góðum árangri og á þeim árangri byggir ný ríkisstjórn sínar áætlanir. Við sjáum fram á mögulegan heildarjöfnuð einmitt fyrir vikið. Núverandi ríkisstjórn (Forseti hringir.) þarf líka að glíma við afleiðingar efnahagshrunsins þó að hún búi svo vel að geta spyrnt sér í góðan árangur fyrri ríkisstjórnar.