143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:53]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur vakið furðu mína þegar ég hef komið inn á þing stöku sinnum undanfarin ár að þegar rætt er um fjármál ríkisins vill yfirleitt þannig til að þingsalurinn tæmist, það eru örfáir sem sitja hér eða sveima um á göngum. Það er nú svo merkilegt að á hverjum tíma, hvort sem við ræðum um fjárlög, fjáraukalög eða lokafjárlög eða hvað það nú er, hljótum við að vera sammála um að það er mikilvægasta málið sem þingið afgreiðir frá sér hverju sinni. Auðvitað ættu þingmenn að sitja undir því og taka þátt í þeim málum á hverjum tíma.

Í upphafi vil ég segja að ég held við séum öll sammála um það, bæði í fjárlaganefnd og aðrir, að mikilvægt er að ná aga í ríkisútgjöldunum. Það eru áfram fram undan mikilvæg og stór verkefni sem nauðsynlegt er að taka traustum og föstum tökum eins og við í Vinstri grænum bentum á í kosningabaráttunni þegar menn lofuðu stórum hlutum.

Þá að fjáraukalagafrumvarpinu sem verður að taka fram að kom allt of seint fram, í lok nóvember, og breytingartillögurnar núna á föstudaginn. Það er ekki hægt annað en að gagnrýna þessi vinnubrögð og þetta verklag, því á þessum tíma ættum við í raun að vera búin að afgreiða fjáraukann og vera að fjalla um fjárlögin.

Ég ætla ekki að fara ofan í hverja einustu tillögu í frumvarpi til fjáraukalaga. Mig langar aðeins að stikla á stóru eins og gert er í nefndaráliti okkar minni hlutans.

Í anda þess að taka fjármál ríkisins föstum tökum hefði ég og minni hlutinn, eins og kemur fram í áliti okkar, helst viljað taka tillögurnar og sortera þær í tillögur sem raunverulega eiga heima í fjáraukalagafrumvarpi og setja hinar til hliðar. Við mundum gera þá kröfu að tillögurnar sem eftir væru uppfylltu þau skilyrði sem sett eru í fjárreiðulögum um hvernig eigi að nýta fjáraukalög til ófyrirséðra útgjalda. Það er rétt að það sem hæstv. utanríkisráðherra var að tala um áðan er svo sannarlega ófyrirséð. Svo má kannski ætla að með nýjum fjárreiðulögum takist okkur að stemma stigu við svona miklum útgjöldum sem fjárauki hvers árs ber með sér.

Eins og fram kom hjá framsögumanni 1. minni hluta, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, er í breytingartillögum meiri hlutans lögð til lækkun gjalda upp á tæpa 2 milljarða, en hækkanir nema á sama tíma tæpum 4 milljörðum á rekstrargrunni. Samkvæmt yfirliti frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu hafa tekjur skilað sér betur í ríkissjóð á seinni hluta ársins en horfur voru á á fyrri hluta ársins, en upphaflegar tekjutölur í fjáraukalagafrumvarpinu eru miðaðar við hagspá frá því í júní sl. og tekjur eru enn undir áætlunum miðað við fjárlög 2013. Við höfum gagnrýnt að miðað sé við hagtölur í júní við framlagningu þessa máls.

Hér hefur komið fram að á sumarþingi voru teknar ákvarðanir af hálfu núverandi ríkisstjórnar sem lækka tekjur innan ársins sem og næstu ára, því þær tekjur sem lagðar eru svo til í framhaldinu fyrir næsta ár eru flestar skammtímatekjur en ekki til framtíðar. Lækkunin var meðal annars vegna veiðigjaldanna og þrátt fyrir að upp hafi komið vandkvæði við framkvæmd þeirra laga hefði ríkisstjórninni verið í lófa lagið að breyta þeim án svona mikils tekjutaps eins og minni hlutinn hér á þingi hefur rakið ágætlega. Samkvæmt tillögum minni hluta atvinnuveganefndar um breytingar á lögum um veiðigjöld hefðu breytingar á frímarki og afsláttarþrepi komið til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki.

Tekjur lækka líka vegna breytinga á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu, eins og hér hefur áður verið sagt. Auðvitað viljum við í minni hlutanum vekja athygli á því og brýna fjárlaganefnd að leggja áherslu á að rekstrarumhverfi þeirrar greinar verði endurskoðað og tryggt að greinin skili líka á sama tíma auknum tekjum í ríkissjóð.

Með þeim aðgerðum sem minni hlutinn gerði m.a. tillögur um í atvinnuveganefnd hefðu tekjur ríkisins lækkað um 250 millj. kr. en ekki 3,2 milljarða sem útgerðarfyrirtæki fá núna miðað við tillögu núverandi ríkisstjórnar. Og að halda því fram að sá tekjumissir hafi ekki áhrif á rekstur ríkissjóðs er hjákátlegt. Hann hefur áhrif bæði á reksturinn og forgangsröðunina eins og kom fram í andsvörum áðan. Ákvarðanir nýrrar ríkisstjórnar hafa með beinum hætti lækkað tekjur ríkissjóðs um rúma 4 milljarða.

Fjármagnskostnaður lækkar mest eða um 7,5 milljarða, og helst vegna þess að í fjárlögum hafði verið gert ráð fyrir að skilmálum skuldabréfs sem styrkja átti eiginfjárstöðu Seðlabankans átti að breyta í óverðtryggt í stað þess að vera verðtryggt, en af því varð ekki.

Síðan er vert að minnast á og vekja athygli á því að ríkissjóður færir bókhald sitt með öðrum hætti en sveitarfélög og fyrirtæki þegar kemur að verðbólguskilum sem gefur um leið til kynna betri stöðu en ætla má. Það kom fram í áliti Ríkisendurskoðunar og í máli fulltrúa hennar á fundi fjárlaganefndar. Við gagnrýndum Ríkisendurskoðun fyrir að kvitta upp á reikninginn sem í raun stenst ekki almennt bókhaldslög. Á meðan slíkt er viðhaft í ríkisreikningi er hætta á því að freistingin verði sú að taka frekar verðtryggð lán þar sem með því er afkoman sýnd betri en hún raunverulega er. Minni hluti fjárlaganefndar vill leggja á það áherslu að við endurskoðun fjárreiðulaganna núna fylgi bætt reikningsskil sem auka trúverðugleika ríkisfjármálanna.

Í áliti minni hlutans er farið ágætlega yfir tilgang fjáraukalaga eins og ég sagði í upphafi máls míns og þar eru nefnd nokkur dæmi. Ég ætla að grípa niður í nokkur þeirra.

Hvað varðar forsetaembættið er það rökstutt í áliti okkar að augljóst er að ekkert þeirra verkefna sem þar eru talin þurfa aukafjárveitingu geta talist ófyrirséð. Hvorki endurnýjun tölvubúnaðar — sem líklega flestir skólar gætu t.d. óskað eftir — né heimsókn Danadrottningar geta fallið í þann flokk.

Stór póstur í aukafjárveitingum er framlag vegna kostnaðar við gerð rannsóknarskýrslna um Íbúðalánasjóð og fall sparisjóðanna, eða um 300 millj. kr. Í ljósi reynslunnar af þeim störfum er afar mikilvægt að skapaður verði skýr rammi bæði hvað varðar tíma og fjármagn þar sem Alþingi hefur nú þegar samþykkt rannsókn á einkavæðingu bankanna.

Það er ekki hægt að skauta fram hjá ríkisstjórninni sem hefur ákveðið að skipta upp ráðuneytum og fjölga bæði ráðherrum og aðstoðarmönnum sem nú eru orðnir 17 talsins. Fjölgun þeirra var heimiluð í tengslum við stækkun ráðuneyta, en nú hefur þeim verið fjölgað sem verður til þess að fleiri aðstoðarmenn eru kallaðir inn og aukning verður í æðstu stjórn ríkisins.

Minni hlutinn bendir á að eðlilegt sé að gera ráð fyrir aukinni fjárveitingu á fjárlögum kosningaárs til að mæta fyrirhuguðum útgjöldum vegna mannabreytinga. Við teljum að hægt sé að horfa til reynslu undanfarinna kosningaára. Það er óeðlilegt að gera engar tillögur um aukafjárveitingar því ég held að alltaf megi gera ráð fyrir mannabreytingum í ríkisstjórn milli kosninga. Að sjálfsögðu gagnrýnir minni hlutinn stjórnvöld á tímum niðurskurðar og hagræðingar fyrir að líta sér ekki nær í þessu tilfelli.

Hvað varðar störf sérfræðingahópa ríkisstjórnarinnar sem kom í kjölfar tillagna síðastliðið sumar er farið fram á 40 millj. kr. framlag. Við teljum eðlilegt að þeirri tillögu hefði fylgt kostnaðarmat eins og lög gera ráð fyrir. Minni hlutinn gagnrýnir að ríkisstjórnin gangi ekki á undan með góðu fordæmi hvað þessi mál varðar.

Við gerum líka athugasemdir við að málaflokkar flytjist á milli ráðuneyta, sérstaklega þegar það virðist eingöngu fara eftir áhugasviði ráðherra. Að okkar mati og eftir okkar vitneskju hefur hvorki verið lagt fram faglegt mat né greining á því hvernig eða hvar þessum verkefnum væri best fyrir komið og hvort þetta sé yfir höfuð heppileg ráðstöfun. Það hefur komið fram í umfjöllun fulltrúa ráðuneytanna sem á fund fjárlaganefndar hafa komið að töluvert flækjustig fylgi þessum umskiptum.

Um helgina var gerð tillaga af meiri hluta fjárlaganefndar sem felur í sér að 300 millj. kr. verða sameinaðar á einn lið hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu vegna áforma um styttingu náms til stúdentsprófs og starfsnámsprófa um eitt ár. Þetta verkefni á ekki að koma til framkvæmda á þessu ári. Það á því að sjálfsögðu að tilheyra fjárlögunum 2014. Við höfum talið að þetta sé gert til að fegra stöðu ríkissjóðs á næsta ári eins og hér hefur verið áður rakið. Við gerum athugasemdir við þessi vinnubrögð og sérstaklega sker tillagan í augu vegna umræðu stjórnvalda um aukinn aga og gegnsæi í ríkisfjármálum.

Meiri hluti fjárlaganefndar hyggst ekki standa við samþykkt fyrri ríkisstjórnar þess efnis að Landspítalinn þurfi ekki að skera niður vegna óvenjuskæðra faraldra og tilfallins kostnaðar vegna þess sem var reiknaður hóflega upp á 125 millj. kr. Minni hlutinn mun því gera að tillögu sinni að við þetta verði staðið þar sem stofnanir ríkisins eiga ekki að þurfa að líða fyrir stjórnarskipti á hverjum tíma.

Boðaðar hafa verið miklar og stórar sameiningar heilbrigðisstofnana. Margar þeirra glíma við mikinn uppsafnaðan halla og gert er ráð fyrir að afkoma þeirra versni um tæpa 2 milljarða á árinu og verði neikvæð um rúma 5 í lok ársins sem væntanlega verður örlítið snúið að fást við þegar á að fara að sameina allan heila pakkann.

Mjög margir liðir velferðarráðuneytisins fá viðbótarheimild. Einn þessara liða eru S-merktu lyfin. Á hverju ári er gert ráð fyrir hundruðum milljóna í fjáraukalögum til útgjaldaaukninga til S-merktra lyfja og vegna magnaukningar. Magnaukningin er vandamál sem kannski flestar þjóðir eiga við að stríða sem og aukinn lyfjakostnaður. Eins og kemur fram í áliti okkar vex enginn annar fjárlagaliður með slíkum hraða. Það er því afar mikilvægt að ná utan um þessi mál. Gert er ráð fyrir því að um eða eftir árið 2020, að ég held, verði þessi liður, einn og sér, ef hann fær að halda áfram að vaxa, jafn stór og útgjöld til spítalans.

Þessi aukning á líka við um sérfræðilækningar og myndgreiningar. Það er mjög mikilvægt að finna úrræði sem ná með einhverjum hætti utan um þessi mál. Ég held að það eigi að vera markmið okkar allra alþingismanna að sameinast um að reyna að finna leiðir til þess að ná utan um þessa liði svo þeir verði ásættanlegir og slíkar fjárhæðir þurfi ekki að koma til á hverju ári.

Það er vert að halda því til haga að fyrri ríkisstjórn hafði á stefnuskrá sinni að vinna gegn kynbundnum launamun og skipaði framkvæmdanefnd um launajafnrétti kynja. Byrjað var á heilbrigðisstofnunum. Eins og kemur fram í álitinu tóku stofnanasamningar gildi 1. mars á þessu ári þar sem ekki þótti tilhlýðilegt að bíða fram til nýs fjárhagsárs. Því er útgjaldaaukning í fjáraukalögum vegna þess rúmur milljarður.

Mikilvægt mál var einnig sett af stað sem varðar ofbeldi gagnvart börnum. Því var ætlað að styrkja lögreglu, ákæruvaldið og Barnahús þegar í stað til að takast á við þann mikla málafjölda sem hafði orðið og hefur orðið, en auk þess að efla forvarna- og fræðslustarf og auka meðferðarúrræði. Af þessum sökum falla til 79 millj. kr. af fjárlagalið ófyrirséðra útgjalda. Við teljum afar mikilvægt að fylgja þessu verkefni vel eftir af hálfu Alþingis þar sem að fjárveitingin fer á marga staði í stjórnsýslunni. Það er vert að fá á því úttekt eða stöðumat eða eitthvað slíkt, þegar þessu tiltekna verkefni á að ljúka, um það hvernig þessum fjármunum hefur verið varið og hvernig hefur gengið.

Fyrri ríkisstjórn gerði líka samning um gjaldfrjálsar tannlækningar fyrir börn sem felur í sér að börn og ungmenni fá alla nauðsynlega almenna tannlæknaþjónustu og greiða eingöngu komugjald. Í fjárlögum yfirstandandi árs var gert ráð fyrir megninu af útgjöldunum, en endanleg útgjöld lágu þó ekki fyrir fyrr en samningurinn var undirritaður. Af þeim sökum falla til 45 millj. kr. í fjáraukalögunum.

Undir þessum velferðarmálum langar mig líka að ræða sjúkrabílana og tel afar mikilvægt að brýna hæstv. heilbrigðisráðherra til að ljúka þeim samningum fyrir áramót, hvaða leið sem verður farin. Þó að ég sé sammála því að best fari að hafa þá hjá slökkviliðum þar sem svo háttar til í dag getur vel verið að finna megi einhverja aðra útfærslu innan þess kerfis, en ég tel að vegna þeirrar þekkingar og reynslu sem hjá slökkviliðum hefur skapast eigum við að halda þessu áfram þar og vona að því sé ekki breytt í fjárlagafrumvarpinu.

Við ræddum hér áðan örlítið um fjarskiptasjóð. Eins og kom fram er tillaga meiri hlutans að sértekjur upp á 195 millj. kr. á þessu ári renni beint í samning við Farice og því lækkar fjárheimild Alþingis um sömu tölu. Þetta hefur auðvitað mikil áhrif á áform fjarskiptasjóðs um aðgerðir til að bæta netsamband út um allt. Það var ánægjulegt að heyra hv. formann fjárlaganefndar tala um að ríkisstjórnin væri þegar búin að taka þetta til sín, en það var á næstu árum. Við þurfum að byrja að mínu mati strax að vinna í þessu, því auðvitað má hlutverk sjóðsins ekki týnast í þessu, en það er að stuðla að öryggi og samkeppnishæfni um landið á sviði fjarskipta þegar markaðsforsendur eru ekki til staðar

Við fengum á fund fjárlaganefndar flest sveitarfélög landsins. Mjög mörg þeirra lýstu vægast sagt bágbornu ástandi í net- og fjarskiptamálum og dæmi nefnd þar sem fólk gat sent tölvupóst með viðhengi og farið og mjólkað og komið svo til baka aftur, þá var pósturinn kannski rétt að fara af stað. Þetta er auðvitað ekki viðunandi, 5 megabæta samband eða jafnvel minna. Við vitum öll að í nútímanum er fátt orðið eins mikilvægt og gott net- og fjarskiptasamband. Því leggur minni hluti fjárlaganefndar áherslu á hið mikla hagsmunamál fyrir landsbyggðina að netsamband verði bætt og telur rétt að tekjurnar vegna útboðsins renni til slíkra verka eins og fjarskiptasjóður hefur gert ráð fyrir. Munum við bera fram tillögu þess efnis.

Mikið hefur verið rætt um fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar og þau verkefni sem hún innihélt. Núverandi ríkisstjórn hefur ákveðið að skera niður nánast öll verkefnin og röksemdirnar eru haldlitlar. Eins og margoft hefur komið fram var markmiðið með fjárfestingaráætluninni að auka fjárfestingu og fjölga störfum sem hefði jákvæð áhrif á hagvöxt og styrkti tekjugrunn ríkissjóðs, m.a. hin brýnu verkefni sem snúa að uppbyggingu innviða friðlýstra svæða og til að taka á móti þeirri miklu aukningu ferðamanna sem hefur átt sér stað. Að auki voru þar fjöldamörg önnur ágæt verkefni.

Það að halda því fram að tekjurnar sem hér voru ekki sóttar og við höfum rætt hafi ekki áhrif er hjákátlegt, eins og ég sagði áðan, og t.d. eru sóknaráætlanir skornar niður sem innihalda dreifnámsskólana. Við trúum því og teljum að það að lækka til viðbótar skuldir ríkisins hefði verið ákjósanlegt í staðinn fyrir að draga úr tekjumöguleikum.

Mig langar líka til að minnast á Vegagerðina. Ég hef rætt mál hennar töluvert í fjárlaganefnd og hef svolitlar áhyggjur af stöðunni þar. Eins og kemur fram í fjáraukalagafrumvarpinu eru Vegagerðinni fyrirframgreiddar markaðar tekjur upp á 16 milljarða. Nú liggur fyrir vinna sem miðar að því að afnema markaðar tekjur. Það kom skýrt fram af hálfu Vegagerðarinnar að verði það gert telja þeir sig ekki vera í færum til að láta skerða sig sem því nemur því í ár er verið að taka 3 milljarða af fyrirframgreiddu tekjunum. Ef sá póstur verður tekinn telja þeir sig ekki geta greitt það.

Mér fannst líka stinga í stúf að 500 millj. kr. væru teknar af viðhaldi og settar í vetrarþjónustu. Þegar sveitarfélögin komu til okkar í fjárlaganefnd var ástand vega eitt af því sem þau ræddu og slæmt viðhald, eins og við þekkjum held ég flest öll. Okkur fannst því mjög sérstakt að þessi ákvörðun skyldi tekin, hvort sem hún var tekin innan húss í Vegagerðinni eða í innanríkisráðuneytinu. Það er alveg ljóst að það þarf væntanlega að bæta við snjómoksturinn fremur en að skera niður lið þar sem er mikil fjárþörf.

Að lokum langar mig að tala aðeins um Íbúðalánasjóð, en málefni hans hafa mikið verið rædd og komið hefur fram að hann er veikasti hlekkurinn í gríðarlega miklum útistandandi ríkisábyrgðum og nemur tæpum milljarði. Það hefur þurft að afskrifa í rekstrarreikningi ríkissjóðs frá 2010 um 40 milljarða eiginfjárframlög til sjóðsins. Ef afskrifa þarf að auki það sem lagt hefur verið til á þessu ári, um 13 milljarða, mun rekstrarhalli ríkissjóðs aukast enn frekar. Miðað við óbreytt ástand er gert ráð fyrir að leggja þurfi sjóðnum til um 4,5 milljarða kr. rekstrarframlag á ári fram til 2017, að minnsta kosti. Því er afar mikilvægt í ljósi þess sem sagt hefur verið um málefni Íbúðalánasjóðs að stefna núverandi stjórnvalda komi skýrt fram hið allra fyrsta.

Að lokum vil ég nefna að minni hluti fjárlaganefndar gerir það sem mér finnst að meiri hlutinn ætti að sjá sóma sinn í að gera, en það er að leggja til að greiða atvinnuleitendum desemberuppbót og leggja til aukafjárveitingu upp á 240 millj. kr.

Í ljósi þess að ég hef verið frekar þungstíg í þessari yfirferð vil ég enda þetta á jákvæðari nótum og fagna því að meiri hlutinn hefur ákveðið að skerða ekki framlög á yfirstandandi ári í Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð, eins og hann var búinn að boða, og er það vel. En að sjálfsögðu mundi ég vilja sjá þeim verkum fram haldið fremur en þær tillögur sem nú liggja fyrir varðandi frumvarpið 2014. Ég vona auðvitað, miðað við það sem hér gerðist í dag, að menn sjái að sér mjög reglulega þegar við þingmenn förum í pontu og krefjumst þess að betur sé gert.