143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Akkúrat það sem hv. þingmaður vekur athygli á hér hefur vakið undrun, að það sem féll í fjárfestingaráætlun — sem gjarnan er kölluð „svokölluð fjárfestingaráætlun“ — fyrrverandi ríkisstjórnar undir græna hagkerfið hefur breyst. Þar er það skorið niður en framlögin færð yfir í verkefni tengd vernd sögulegra menningartengdra byggða og fornleifa. Sá sjóður er vistaður í forsætisráðuneyti. Ég geri í sjálfu sér enga athugasemd við það en ég vil kalla það sem kallað var þjóðmenning bara menningu. Ég sé ekki hvað þjóð- hefur með það að gera af því að þetta er menning frá ólíkum tímum alveg yfir í danskar byggingar og norskar.

Ég vakti athygli á því í ræðu minni að nú er kominn 10. desember og ég spyr: Ætla menn núna að deila þessu út með einhverjum hætti sem jólagjöfum til einhverra ákveðinna aðila? Er búið að undirbúa það með einhverjum hætti? Ég hef ekki fengið nein svör eða heyrt hvernig á að gera þetta. Mér finnst þetta svolítið sérkennileg aðferð ef á að leggja þarna til peninga sem fara í einhverja skúffu í forsætisráðuneytinu og á svo að úthluta — af hverjum veit ég ekki — á nýju ári. Þetta er algjörlega á skjön við fjáraukalög. Þetta er eins í menntamálaráðuneytinu eins og ég nefndi áðan.

Þess eru auðvitað dæmi að menn hafi flutt verkefni á milli ráðuneyta. Við lögðum okkur fram um að fækka ráðuneytum til að minnka kostnað. Því er aftur á móti algjörlega snúið við, ráðherrum fjölgað og síðan eru kallaðir til aðstoðarmenn. Menn segja: Það er einhver heimild frá fyrrverandi ríkisstjórn. Ég held að þeim væri nær að horfa á að í lögin voru settar heimildir um að ráða aðstoðarmenn en fyrri ríkisstjórn gerði það ekki og sparaði verulega á þessum lið. Við sjáum hér verulega aukinn stjórnunarkostnað en svo birtist allt í einu ákvörðun í fjölmiðlum meðan við erum í þessari umræðu um að það eigi svo að skera stjórnunarkostnaðinn um 5% og væntanlega byrja þeir þá á aðstoðarmönnunum, þeim sem eru á (Forseti hringir.) launum.