143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í fyrsta lagi dálítið undarlegt að hér er efnisrík ræða með mörgum athugasemdum og enginn fjárlaganefndarmaður til að bregðast við henni. (Gripið fram í.) Þetta er ekki boðlegt verklag. Ég hefði haldið að stjórnarþingmenn ættu að bera það mikla virðingu fyrir verkum sínum að þeir ættu að útskýra hluti sem spurt er í út í.

Þar sem það er ekki gert ætla ég að inna hv. þingmann eftir tvennu í hennar máli. Annað er þetta atriði sem hún rakti um skítamixið sem hún kallaði svo og maður veltir fyrir sér hvernig standi á þegar verið er að grauta saman ólíkum fjárheimildum innan fjárlagaheimilda menntamálaráðuneytisins undir því yfirskini að þetta séu fjárheimildir úr átakinu Nám er vinnandi vegur og það sé ekki þörf fyrir þær.

Ég spyr hv. þingmann vegna þess að hún var hæstv. menntamálaráðherra til skamms tíma: Varð hún vör við það að ekki væri spurn eftir þessum fjárheimildum? Það er ekki mín upplifun af þeirri miklu þörf sem var í kerfinu fyrir sérstök námsúrræði fyrir ungt, atvinnulaust fólk. Þá skiptir líka máli með hvaða hætti menn nálgast verkefnið, hvort þeir bjóði fram þessa fjármuni og reyni að laða fram frumkvæði í skólunum til að þeir verði nýttir.

Hitt er svo athyglisvert að hinn ágæti meiri hluti fjárlaganefndar, sem sér ekki ástæðu til að sitja hér með okkur í kvöld og fylgja verkum sínum úr hlaði, segir beinlínis: Meiri hlutinn átelur þessi vinnubrögð ráðherrans og bendir á að réttara sé að ónýttar heimildir falli niður og ráðherra geri þá nýjar tillögur um útgjöld.

Skítamixið er greinilega ekki með vilja meiri hlutans þó að hann telji sér samt sæma að bera sullumbullið á borð (Forseti hringir.) fyrir þingheim.