146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

eigandastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[15:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Píratar vilja gagnsætt eignarhald. Við verðum að vita við hverja við erum að versla, hverjum við erum að selja, út af opinberum hagsmunatengslum. Dæmin um fjölskyldutengsl á milli opinberra aðila og kaupenda eru mörg hér á Íslandi. Það er kannski óhjákvæmilegt en það ætti bara að hvetja okkur til að gera betur.

Stefnan hefur verið sú á undanförnum mánuðum að mikið hefur verið selt af eignum. Venjulega er fer tilhögunin fram mjög í flýti. Það er mikill flýtir og asi í þessari sölu. Salan er auglýst þegar markaðir lokast og tilboð á að klára áður en markaðir opnast aftur. Svo stuttur tími eykur ekki jafnræði í aðkomu, hann leiðir til þess að ákveðnir aðilar geta haft forskot í slíkum kaupum.

Helsta hlutverk okkar er að fara vel með almannafé og almannaeign. Jafnframt er skylda okkar að veita ákveðna þjónustu, grunnþjónustu sem við ákveðum í sameiningu. Þar er helst lögð áhersla á jafnt aðgengi og gæði. Við eigum að vernda hagsmuni almennings, eigendanna, en ekki sérhagsmuni. Hér á undanförnum árum hafa ýmis dæmi komið upp eins og Borgunarmálið, sem þarf að skoða mjög vel, einkavæðing bankanna, einkavæðing Símans og sala á grunnnetinu, sem var ákveðin grunnþjónusta. Síðar kom upp úr dúrnum að það var ekki nauðsynlegt að selja það jafnhliða Símanum. Það eru alls konar slík dæmi sem segja okkur að við verðum að gera hlutina betur, ígrunda þá.

Við gefum bönkunum möguleika á að vera með belti og axlabönd hvað varðar verðtryggingu. Það eru rosalega margir hlutir sem við þurfum að huga að til þess að geta sinnt og verndað hagsmuni almennings en ekki sérhagsmuni.