146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

eigandastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[15:51]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Þessi umræða er ágæt þó að mér finnist stundum að ekki sé öllum ljóst hvað felist í fjárfestingarbankastarfsemi annars vegar og viðskiptabankastarfsemi hins vegar, þegar menn tala um aðskilnað. Stundum ruglast þetta. Mér finnst líka sérkennilegt að hlusta á það þegar í einu orði er sagt að það eigi ekki að vera þannig að ríkið beri ábyrgð á innstæðu í bönkum en menn leggjast síðan gegn því að ríkið losi um eignarhlut í bönkunum. Það gengur auðvitað ekki upp.

Það sem ég vil hins vegar gera að umtalsefni er hvort ekki sé rétt að við hér í þingsal tökum það til umræðu hvort ekki sé skynsamlegt að leiða í lög hámarkshlut kjölfestufjárfesta og hvaða kvaðir við setjum á slíka fjárfesta. Hæstv. fjármálaráðherra rétt vék að þessu hér áðan. Þá á ég við að ég hygg að það sé skynsamlegt að þegar fjárfestir er kominn yfir ákveðinn hlut, sem getur t.d. tryggt honum sæti í stjórn viðkomandi banka, séu settar mjög miklar takmarkanir á möguleika hans til að eiga í öðrum fyrirtækjum. Ég held að það sé mikilvægt að við hugum að þessu vegna þess að við höfum ekki sérstaklega góða reynslu af því að menn sitji víða, annars vegar í bönkum og eigi hins vegar ráðandi hlut í stórum fyrirtækjum sem aftur eru viðskiptavinir viðkomandi banka o.s.frv.

Ég er mjög ánægður með að hæstv. fjármálaráðherra virðist einmitt vera að hugsa á þessum nótum og það væri kannski gott (Forseti hringir.) ef hann myndi í seinni ræðu sinni segja okkur aðeins, ef hann hefur tíma til, hvernig hann hugsar sér að þetta gæti orðið.