146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

endurskoðun samgönguáætlunar.

92. mál
[18:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn og svör hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra en verð að segja að það er eins og það vanti ástríðuna í hæstv. ráðherra varðandi sinn málaflokk. Við höfum hér öll hlustað á innblásnar ræður frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, en svo virðist vera að hann sé einhvern veginn horfinn inn í hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og virðist ekki hafa mikinn áhuga á því að berjast fyrir sínum málaflokkum þrátt fyrir að hér komi hins vegar fram skýrar stuðningsyfirlýsingar við ráðherrann um að við séum tilbúin að taka þann slag.

En ástæðan fyrir því að ég kem hér upp er m.a. að hvetja ráðherrann til þess að huga ekki hvað síst að okkur á höfuðborgarsvæðinu. Dagurinn í dag sýnir mjög vel hversu mikilvægt það er að huga að samgöngumálunum á höfuðborgarsvæðinu. Fólk hefur verið að ég held einn og hálfan tíma á leiðinni heim. Við vitum það hversu erfiðar samgöngurnar hafa verið. Ég vona svo sannarlega að ráðherra finni aftur kraftinn og ástríðuna sem hefur svo oft einkennt störf hans og hann fari að taka slaginn fyrir sínum málum.