146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

radíókerfi og fjarskiptakerfi.

137. mál
[19:26]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir hans svör. Mér líður pínulítið eins og ég sé maðurinn sem er að berjast gegn litasjónvarpinu vegna þess að ég er að minna á að það sé ekki komið svart/hvítt sjónvarp alls staðar eins og var hér fyrir örfáum áratugum þegar þá umræðu bar hvað hæst.

Mig langar einfaldlega að minna hæstv. ráðherra á, við áttum orðastað um þetta á dögunum, að það er því miður ekki þannig að allir hafi almennilegan aðgang að netinu í dag. Í frumvarpi sem hæstv. ráðherra leggur fram í næsta mánuði, samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, um nethlutleysi og innleiðingu á TSM-reglugerð segir, með leyfi forseta:

„Í reglunni felst viðurkenning á því hversu mikilvægur netaðgangur er fyrir hinn almenna borgara í frjálsu og tæknivæddu samfélagi.“

Þetta ættum við að hafa í huga og kannski sérstaklega þegar kemur að fjármunum til uppbyggingar kerfisins.