148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

sjúkraflutningar.

237. mál
[17:08]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil einnig þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég vil bara segja í upphafi að svör hæstv. ráðherra blása manni smá von í brjóst um að þessi málaflokkur sé að fá aukna athygli innan heilbrigðiskerfisins. En mikilvægi þessa málaflokks sem utanspítalaþjónusta eða sjúkraflutningar eru eykst dag frá degi. Sú þróun á sér stað að læknar og heilbrigðisstarfsfólk verður alltaf sérhæfðara og sérhæfðara og þjappar sér saman á færri staði og það verður erfiðara að manna landsbyggðina á sama tíma og þeir sem sinna utanspítalaþjónustunni verða alltaf færari og færari með betri tæki og geta sinnt sínu starfi miklu betur.

Ég tek undir að það er mikilvægt að horfa á þessa þjónustu heildstætt og gera um þetta áætlun og hafa sjúkraflugið, sjúkraþyrlur og sjúkrabíla allt saman undir og skoða hvernig þetta spilar sem best saman. Það þarf líka að tryggja menntun í þessum málaflokki og skoða hvernig hægt er að tengja við fjarheilbrigðisþjónustu og gera þetta á sem hagkvæmastan hátt fyrir alla.