149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:46]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að margt sem mér sýnist hæstv. ráðherra vera að vinna eftir er mjög kunnuglegt og lá í raun fyrir í félagsmálaráðuneytinu fyrir rúmu ári síðan, allar meginútlínur sem átti að vinna eftir. Hæstv. ráðherra verður bara að fyrirgefa, en mér þykir þá ekki sérlega hratt hafa unnist í þeirri endurskoðun. Það er alveg ljóst að ekki er verið að byrja á upphafsreit, búið var að vinna mjög mikla og gagnlega vinnu í tíð ríkisstjórnarinnar þar á undan, í tíð þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur. Þó nokkrum mannárum hefur því verið varið í endurskoðun á kerfinu og ég verð að viðurkenna að mig er farið að lengja nokkuð eftir niðurstöðu þess.

En það er alveg ljóst, og það hefur komið skýrt fram, m.a. hjá þeim gestum sem komið hafa fyrir fjárlaganefnd, að það er ekkert því til fyrirstöðu að greina einfaldlega þarna á milli. Það er alveg ljóst og hefur verið niðurstaðan. Það er þverpólitísk samstaða um það í þessum sal og hefur verið niðurstaða allra sem að því hafa komið að eitt stærsta vandamál í núverandi örorkulífeyriskerfi (Forseti hringir.) sé krónu á móti krónu skerðingin, þótt líka þurfi að gera margar aðrar lagfæringar á því. En úr því að hæstv. ráðherra vissi ekki hvað hann átti að gera við 4 milljarðana þá hefði verið hægur leikur, og vafalítið hægt að afla því stuðnings í salnum, að byrja á því að afnema krónu á móti krónu skerðinguna.