150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

hæfi sjávarútvegsráðherra.

[15:16]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra svaraði ekki spurningu minni frekar en hún svaraði spurningu hv. þm. Loga Einarssonar sem kom upp á undan mér. Það er leitt. Ég vildi óska þess að ráðherra svaraði spurningunni sem var um hvaða skilaboð henni finnist sjávarútvegsráðherra hafa sent út í samfélagið með þessu símtali. Í svari hæstv. sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn minni á fimmtudaginn var kom m.a. fram að hann hefði aldrei sagt sig frá einstökum málum með ákvörðun vegna tengsla sinna við Samherja. Einnig er ekki annað að skilja af svörum ráðherra en að hann sé ósammála skýrslu forsætisráðherra um að ásýnd skipti öllu máli þegar kemur að trausti til stjórnmála. Hann tók það fram að hann hefur aldrei sagt sig frá einstaka málum. Það skiptir meira máli en ásýndin að ráðherrann sjálfur upplifi að hann hafi traust fólksins.

Í skýrslunni kemur einnig fram að Siðfræðistofnun Háskóla Íslands verði falið það verkefni að veita stjórnvöldum ráðgjöf um siðferðileg álitamál. Nú hefur forsætisráðherra lýst yfir trausti á sjávarútvegsráðherra og ég spyr: (Forseti hringir.) Leitaði hún ráðgjafar Siðfræðistofnunar áður en hún gerði það? Ef ekki, hvers vegna ekki? Er efling á trausti stjórnmála raunverulegt markmið eða er þetta bara skraut?