150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

Landsvirkjun og upplýsingalög.

[15:32]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég tel að undanþágan eigi almennt við um rekstur Landsvirkjunar þar sem hún er samkvæmt okkar lagaumhverfi starfandi á samkeppnismarkaði, hvað sem okkur finnst um það. Raforkumarkaðurinn er samkeppnismarkaður þannig að undanþágan á í raun og veru almennt við um starfsemi Landsvirkjunar. Hv. þingmaður spyr hvað Landsvirkjun hafi verið að gera og hvort ekki þurfi að upplýsa um það. Ég tel nokkuð ljóst að Landsvirkjun hafi væntanlega starfað bara samkvæmt því umboði sem henni var veitt í tíð ríkisstjórnarinnar sem sat 2013–2016 þegar þáverandi hæstv. forsætisráðherra fór í könnunarviðræður ásamt breskum stjórnvöldum um lagningu sæstrengs hér. Ég tel það hafa komið mjög skýrt fram hjá núverandi ríkisstjórn að núna er ekkert slíkt á teikniborðinu. Væntanlega hefur könnun Landsvirkjunar verið í beinu framhaldi af þessari skýru yfirlýsingu þáverandi hæstv. forsætisráðherra.