150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

traust almennings í garð sjávarútvegskerfisins.

[15:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Samherjamálið er mikið áfall fyrir íslenskan sjávarútveg og raunar allt íslenskt atvinnulíf. Traust almennings í garð þessarar mikilvægu atvinnugreinar hefur beðið mikinn hnekki. Það hlýtur að vera forgangsatriði fyrir íslensk stjórnvöld að gera það sem í þeirra valdi stendur til að efla traust til greinarinnar á nýjan leik, atvinnugrein sem fer með nýtingarrétt á sameiginlegri auðlind allra landsmanna.

Ýmis atriði er vert að hafa í huga en tvö standa upp úr að mínu mati. Í fyrsta lagi það gjald sem sjávarútvegurinn greiðir fyrir ótímabundinn nýtingarrétt á þessari verðmætu og sameiginlegu auðlind landsmanna og lengi hefur verið deilt um. Þar er deilt um hvort þau veiðigjöld sem lögð eru á íslenskan sjávarútveg endurspegli þau miklu verðmæti sem felast í ótímabundnum veiðirétti greinarinnar á Íslandsmiðum. Ljóst er að sjávarútvegur er ein arðsamasta atvinnugrein landsins og því eðlilegt að spurt sé hvort þeir 5 milljarðar sem áætlað er að greinin greiði í veiðigjöld á næsta ári tryggi þjóðinni eðlilega hlutdeild í þeirri arðsemi sem hlýst af nýtingu auðlindarinnar. Í skjölum Samherjamálsins má m.a. sjá að fyrirtækið var tilbúið að greiða mun hærra verð fyrir aðgang að veiðiheimildum í Namibíu en sem nemur þeim veiðigjöldum sem lögð eru á sjávarútveg hér á landi. Með hliðsjón af áætluðum veiðigjöldum næsta árs má sjá að áætlað er að greinin muni greiða um 13 kr. á kíló fyrir ótímabundinn nýtingarrétt, en í gögnum Samherjamálsins kemur í ljós að fyrirtækið var reiðubúið að greiða nærri tvöfalt hærra verð fyrir leiguheimildir til eins árs.

Hagsmunasamtök íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hafa ítrekað haldið því fram að álögð veiðigjöld hér á landi gangi mjög nærri atvinnugreininni og undir þau sjónarmið hefur verið tekið af hálfu ýmissa málsmetandi stjórnmálamanna en engu að síður virðist eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins vera reiðubúið að greiða mun hærra verð fyrir slíkan veiðirétt annars staðar utan íslenskrar lögsögu. Það er því eðlilegt að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún telji þessar upplýsingar efla traust almennings á því að þjóðin njóti sanngjarnrar hlutdeildar í arðsemi af nýtingu þessarar sameiginlegu auðlindar sinnar.