151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[17:32]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst áhugavert að heyra yfirferð hv. þingmanns yfir markmiðin með hálendisþjóðgarðinum. Gagnrýni hans beindist að einhverju leyti að því að verið væri að koma á fót stofnun utan um það að stuðla að rannsóknum og fræðslu, eins og segir í 7. lið markmiðanna. Nú er kannski alveg rétt, sem hv. þingmaður nefndi, að t.d. er hægt að stuðla að landgræðslu, sem snýr að 8. lið, o.fl. En ég velti því samt fyrir mér hvort hv. þingmaður geti lýst því hvernig hann sér fyrir sér að frekar yrði stuðlað að rannsóknum og fræðslu án þess að stofnun væri til taks til þess, vegna þess að nú vitum við að þetta svæði er mikið notað í vísindaskyni. Það er knýjandi þörf á því að almenningur sé líka betur upplýstur um það hvað er inni á miðhálendinu. Ég fór sjálfur ekki inn á miðhálendi Íslands fyrr en á þessu ári og vildi að ég hefði gert það mun fyrr, það er svo margt þangað að sækja. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að hægt yrði að fjármagna rannsóknir og fræðslu á annan hátt, hvernig væri betur hægt að gera það? Og kannski ekki síst: Hvaða form væri heppilegra en einmitt einhvers konar þjóðgarðsform?