151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[17:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy andsvarið. Það er svo sem ekki vandamál að styðja við rannsóknir og þróun á þessu svæði eins og á svo mörgum öðrum sviðum hagkerfisins. Við erum með fjölbreytta sjóði sem styðja við ýmiss konar frumrannsóknir og almennar rannsóknir á öllum sviðum efnahagslífsins. Við erum með öfluga háskóla á Hvanneyri, á Hólum, við höfum Háskóla Íslands með sína öflugu starfsemi og eflaust er eitthvað í verkfræðideild Háskólans í Reykjavík sem félli hér undir; ég kann ekki að nefna með hvaða hætti verkefni þarna gætu fallið undir Háskólann á Akureyri. Til staðar eru, eins og ég segi, fjölbreyttir sjóðir, Landgræðslan og Skógræktin. Við erum með ógrynni af ríkisstofnunum eða apparötum sem gætu með mjög skilvirkum og hagkvæmum hætti, að ég held, bætt rannsóknum þarna undir sinn hatt. Ef hægt er að fjármagna það innan svokallaðs hálendisþjóðgarðs er alveg eins hægt að fjármagna það fyrir einhverja aðra ríkisstofnun, frístandandi sjóð eða einkafyrirtæki eftir því sem það verkaðist. Ég sé engin vandamál við að styðja við þetta markmið án þess að sett sé á fót sérstök stofnun þar um. Það er ekkert í frumvarpinu sem bendir til þess að rannsóknir — vissulega fræðsla, ég gef mér það nú — séu sérstakt hlutverk þjóðgarðsins ef maður horfir bara á skipulag hans.