151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og vil aðeins ræða þetta nánar við hann. Nú hefur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gert skýrslu, sem er um það bil ársgömul, þar sem einmitt er rætt um áhrif verndarsvæða á grannbyggðir. Þetta er viðtalsrannsókn þar sem tekin voru 16 viðtöl er sneru að Vatnajökulsþjóðgarði og rætt við þá sem eiga þar hagsmuna að gæta; fulltrúa sveitarfélaga, ferðaþjónustufyrirtækja, atvinnuþróunarfélaga, landeigenda og starfsmanna. Þar var spurt út í samskipti við þá sem ráða ríkjum í þeim þjóðgarði. Þar kemur einmitt fram að margir óttast boð og bönn og vilja meira samráð við heimamenn á öllum stigum friðlýsingar almennt. Rauði þráðurinn í öllum þeim viðtölum er djúpstætt vantraust sem er yfirleitt lýst þannig að vísað er til þeirra sem koma að stjórn þjóðgarða og náttúruvernd almennt úr fjarlægð. Þarna sjáum við bara með rannsókn að víða er þegar pottur brotinn í þessum samskiptum í þeim þjóðgörðum okkar sem fyrir eru og á friðlýstum svæðum.

Ég verð að segja það, hv. þingmaður, að mér finnst það einfaldlega benda til þess að sporin hræði. Og er þá ekki bara rétt, eins og staðan er núna, að við tökum okkur á og sinnum mun betur þeim svæðum sem við höfum nú þegar friðlýst? Leiðréttum það sem hefur misfarist, m.a. í samskiptum, en förum ekki að stofna enn einn þjóðgarðinn og fara aftur (Forseti hringir.) í þetta ferli þar sem djúpstæður ágreiningur ríkir í samskiptum og öðru slíku. (Forseti hringir.) Er ekki rétt að einbeita sér að því, hv. þingmaður, sem þegar hefur verið gert, þeim þjóðgörðum sem eru þegar komnir og þeim svæðum (Forseti hringir.) sem hafa verið friðlýst heldur en að fara að stofna enn einn þjóðgarðinn?