151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:09]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir síðara andsvar. Ég held samráðið hafi verið býsna gott. Annars ætla ég ekki að fara að tala fyrir hönd hæstv. ráðherra og er ekki sérstakur talsmaður hans í þessu máli. Virðulegur ráðherra getur fyllilega talað fyrir sinn hatt. Ég þykist bara vita að menn hafi leitað eftir því að ná lendingu og núverandi frumvarp er afsprengi þess. Ef hv. þingmaður þykist hafa upplýsingar um að samráð hafi ekki verið nægilegt þá mun það fá sína umfjöllun í umhverfis- og samgöngunefnd. Þar verður mögulegt að gera þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera í ljósi þess. Eflaust munu berast umsagnir í þá veru.

Virðulegur þingmaður segir að það ríki djúpstætt vantraust. Það er nú bara þannig með mannkindina að við erum ansi mikið á varðbergi þegar einhverjar breytingar eiga sér stað. Það er tortryggni við breytingar. Ég hef upplýsingar um verndarsvæðið á Snæfellsnesi og þar telja menn að hafi orðið algjör umskipti, bæði hvað varðar umgengni við náttúruna, ferðafólkið og uppbyggingu atvinnu í tengslum við ferðamenn. Þar hafa orðið algjör umskipti. Ég þykist vita að það sé ekki það sem ráði för hæstv. ráðherra, þ.e. þessi viðskiptalegu tengsl, (Forseti hringir.) heldur sé það náttúran og að hún fái að njóta sín betur til langrar framtíðar.